Arnar Þór Viðars­son mun á morgun opin­bera nýjan lands­liðs­hóp sinn fyrir komandi verk­efni í undan­keppni Evrópu­mótsins. Undan­keppnin fer öll fram á þessu ári og í boði er far­miði á loka­mótið sem fram fer í Þýska­landi sumarið 2024.

Eins og fram kemur hér að ofan hefur Arnar Þór opnað dyrnar fyrir endur­komu Alberts Guð­munds­sonar. Mál Alberts hefur fengið mikla um­fjöllun síðustu mánuði eftir að Arnar Þór sagði hugar­far Alberts ekki nógu gott og sökum þess ætti hann ekki skilið sæti í lands­liðs­hópnum. Hvort Arnari hafi tekist að bera klæði á vopnin og fá Albert til að breyta hugar­fari sínu gagn­vart lands­liðinu kemur í ljós á morgun.

Mið­svæðið er lík­lega stærsti haus­verkurinn fyrir Arnar Þór farandi inn í þetta verk­efni. Birkir Bjarna­son hefur ekki spilað í rúman mánuði í Tyrk­landi og er því ekki í góðri leik­æfingu, Birkir verður 35 ára gamall innan tíðar en hann er leikja­hæsti leik­maður í sögu lands­liðsins. Aron Einar Gunnars­son er í leik­banni í fyrsta leiknum gegn Bosníu og þá hefur Ísak Berg­mann Jóhannes­son fengið fá tæki­færi hjá FC Kaup­manna­höfn á undan­förnum vikum. Fróð­legt verður að heyra svör Arnars um það hvernig leysa skal málin á mið­svæðinu.

Elías Rafn Ólafs­son, mark­vörður FC Mid­tjylland í Dan­mörku, spilar ekkert þessa dagana. Elías var fyrsti kostur Arnars í markið framan af en meiddist og hefur ekki náð að koma sér aftur í liðið í Dan­mörku. Allar líkur eru á því að Rúnar Alex Rúnars­son verði maðurinn sem Arnar treystir á á­fram enda hefur hann spilað mjög vel í Tyrk­landi á þessu tíma­bili.

Ís­lenska lands­liðið vantaði á síðasta ári af­gerandi marka­skorara, Al­freð Finn­boga­son ætti að geta leyst það vanda­mál en marka­maskínan er komin á fulla ferð með Lyng­by í Dan­mörku eftir meiðsli. Munar um minna fyrir ís­lenska liðið.

Fyrir utan Birki Bjarna­son eru allir aðrir lykil­menn liðsins á mjög góðum stað og hafa spilað mikið og vel síðustu vikurnar. Miði á Evrópu­mótið í Þýska­landi er ekki svo fjar­lægur draumur ef liðið fer vel af stað í næstu viku en fyrsti leikurinn gegn Bosníu er ansi mikil­vægur.