Arnar Þór Viðarsson mun á morgun opinbera nýjan landsliðshóp sinn fyrir komandi verkefni í undankeppni Evrópumótsins. Undankeppnin fer öll fram á þessu ári og í boði er farmiði á lokamótið sem fram fer í Þýskalandi sumarið 2024.
Eins og fram kemur hér að ofan hefur Arnar Þór opnað dyrnar fyrir endurkomu Alberts Guðmundssonar. Mál Alberts hefur fengið mikla umfjöllun síðustu mánuði eftir að Arnar Þór sagði hugarfar Alberts ekki nógu gott og sökum þess ætti hann ekki skilið sæti í landsliðshópnum. Hvort Arnari hafi tekist að bera klæði á vopnin og fá Albert til að breyta hugarfari sínu gagnvart landsliðinu kemur í ljós á morgun.
Miðsvæðið er líklega stærsti hausverkurinn fyrir Arnar Þór farandi inn í þetta verkefni. Birkir Bjarnason hefur ekki spilað í rúman mánuði í Tyrklandi og er því ekki í góðri leikæfingu, Birkir verður 35 ára gamall innan tíðar en hann er leikjahæsti leikmaður í sögu landsliðsins. Aron Einar Gunnarsson er í leikbanni í fyrsta leiknum gegn Bosníu og þá hefur Ísak Bergmann Jóhannesson fengið fá tækifæri hjá FC Kaupmannahöfn á undanförnum vikum. Fróðlegt verður að heyra svör Arnars um það hvernig leysa skal málin á miðsvæðinu.
Elías Rafn Ólafsson, markvörður FC Midtjylland í Danmörku, spilar ekkert þessa dagana. Elías var fyrsti kostur Arnars í markið framan af en meiddist og hefur ekki náð að koma sér aftur í liðið í Danmörku. Allar líkur eru á því að Rúnar Alex Rúnarsson verði maðurinn sem Arnar treystir á áfram enda hefur hann spilað mjög vel í Tyrklandi á þessu tímabili.
Íslenska landsliðið vantaði á síðasta ári afgerandi markaskorara, Alfreð Finnbogason ætti að geta leyst það vandamál en markamaskínan er komin á fulla ferð með Lyngby í Danmörku eftir meiðsli. Munar um minna fyrir íslenska liðið.
Fyrir utan Birki Bjarnason eru allir aðrir lykilmenn liðsins á mjög góðum stað og hafa spilað mikið og vel síðustu vikurnar. Miði á Evrópumótið í Þýskalandi er ekki svo fjarlægur draumur ef liðið fer vel af stað í næstu viku en fyrsti leikurinn gegn Bosníu er ansi mikilvægur.