Eftir að hafa lesið grein Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, þar sem hún gagnrýnir fyrrverandi félag sitt Lyon, er ljóst að enn er langt í land í ýmsum þáttum kvennaknattspyrnunnar. Hefur greinin vakið mikla og verðskuldaða athygli, svo mikla að fjallað er um hana hinum megin á hnettinum. Hún segir þar frá framgöngu Lyon í sinn garð eftir að hún varð ólétt að syni sínum, sem og eftir að hún eignaðist hann.

Lyon var með stæla við Söru eftir að hún fór heim til Íslands í kjölfar þess að hafa orðið barnshafandi. Félagið greiddi henni þá aðeins um 27 þúsund evrur á tímabili þar sem Sara átti að fá 109 þúsund evrur. Sara fór í mál við Lyon með aðstoð FIFAPRO leikmannasamtakanna og vann það. Frökkunum var gert að greiða henni um tólf milljónir íslenskra króna sem hún átti inni.

Sara lét ekki staðar numið þar heldur ritaði tímamótagrein um málið, sem mun án efa sjá til þess að félög munu hugsa sig tvisvar um áður en þau ákveða að koma fram við barnshafandi leikmann á annan eins hátt og Lyon kom fram við Söru. Á Sara mikið hrós skilið fyrir þetta og má undirstrika hversu mikilvægt skref ein allra fremsta knattspyrnukona Íslandssögunnar hefur tekið fyrir komandi kynslóðir leikmanna.

Leiðindi Lyon gagnvart Söru voru ekki aðeins af fjárhagslegum toga. Viðhorfið sem hún og sonur hennar upplifðu eftir að hún sneri aftur til Frakklands var óásættanlegt. Henni var meinað að ferðast með hann í útileiki er drengurinn var enn á brjósti og forseti Lyon leit ekki við þeim þó þau væru í sama rými í eitt skiptið. Svona mætti lengi áfram telja.

Yfirlýsing sem Lyon gaf út sem svar við grein Söru var í besta falli afar aum. Þar fullyrti félagið að hafa staðið við bakið á Söru að fullu í óléttunni. Einmitt.

Það sem er ef til vill mest sláandi við þetta leiðinlega mál er að Lyon hefur lengi verið þekkt sem eitt fremsta aflið í kvennaknattspyrnu, bæði innan og utan vallar. Þar eiga málefni knattspyrnukvenna að vera í hávegum höfð. Ef potturinn er eins brotinn þar og hann virðist vera er hægt að gefa sér það að staðan sé átakanlega slöpp annars staðar.

Það má þó binda vonir við að tímamótagrein Söru breyti leiknum um heim allan.