Ársþing KSÍ er í febrúar og er víða pottur brotinn enda hefur Knattspyrnusambandið þurft að eiga við mörg erfið mál undanfarið en ekkert af þeim tengist því sem gerist innan vallar.

Á ársþingi sambandsins í febrúar verður kosið um formann og stjórn. Vanda Sigurgeirsdóttir, sem kosin var til bráðabirgða, setur stefnuna á endurkjör og mátti heyra á henni í útvarpsþætti Fótbolta.net á laugardag að hún væri að undirbúa kosningabaráttuna. Ætlar Vanda að fara að ferðast um landið á næstu vikum og ræða við félögin.

Af samtali mínu við fólk í hreyfingunni er ljóst að Vanda fær mótframboð. Á bak við tjöldin eru aðilar sem skoða nú hvort þeir eigi möguleika á því að ná kjöri. Vanda er auðvitað nýlega tekin við en hún hefur notið vinsælda hjá mörgum og ljóst að baráttan um stólinn verður áhugaverð í febrúar. Fyrir fjórum árum steig Björn Einarsson fram með þá hugmynd að formaður KSÍ yrði ekki í fullu starfi.

Björn bauð sig fram gegn Guðna Bergssyni en náði ekki kjöri. Hugmyndin er þó enn góð og gild og ljóst að hún gæti fengið hljómgrunn í febrúar. Hugmynd Björns var á þá leið að formaður myndi stjórna sambandinu í gegnum stjórnarfundi einu sinni í viku en framkvæmdastjóri myndi sjá um reksturinn og yfirmaður knattspyrnumála sæi um hlutina sem gerast innan vallar. Það þarf að horfa til framtíðar og þetta gæti verið ein leið til þess að fara nýja leið á skrifstofu KSÍ.