Algjört fúsk virðist einkenna undirbúning KSÍ fyrir Evrópumót kvenna í sumar. Íslenska kvennalandsliðið er flaggskip sambandsins í dag, karlalandsliðið getur aðeins unnið slökustu landslið í heimi á meðan stelpurnar eru á stærsta sviði Evrópufótboltans í sumar.

Undirbúningurinn fyrir mótið virðist hins vegar einkennast af fúski, þar sem allt virðist illa skipulagt. Það þarf kannski ekki að koma á óvart enda hefur sambandið misst flesta sína reynslumestu starfsmenn í kringum stórmót á undanförnum mánuðum og árum.

Það var aðeins í síðustu viku, rétt rúmum mánuði fyrir mót, sem ljóst var að liðið myndi spila æfingaleik fyrir Evrópumótið. Þorsteinn Halldórsson fær einn æfingaleik við fremur slakt landslið Póllands til að undirbúa liðið. Talað hafði verið um að leikirnir yrðu tveir, liðið fær því ekkert sérstakan undirbúning fyrir mótið.

Fjölmiðlar fengu svo í vikunni tölvupóst um að hópurinn sem færi á mótið yrði kynntur á föstudag, frábær tímasetning til að tilkynna hvaða leikmenn fá það traust að koma fram fyrir Íslands hönd á stærsta sviði fótboltans.

Skipulagið var ekki betra en það hjá KSÍ að örfáum klukkustundum síðar kom póstur þess efnis að búið væri að færa fundinn og opinberun hópsins til laugardags. Opinberun hóps um miðjan dag á laugardag mun vekja litla sem enga athygli, um kaffileyti á laugardegi eru flestir að spá í allt annað en að hanga fyrir framan síma, tölvu eða sjónvarp til að fylgjast með opinberun hópsins.

Konurnar sem fá þann heiður að vera í hópi Íslands eiga meiri og betri athygli skilið en að hópurinn sé kynntur á miðjum laugardegi í júní.

Fari illa á EM er vafalítið hægt að horfa í undirbúninginn.