Óhætt er að fullyrða að Arnar Þór Viðarsson hafi aldrei upplifað jákvæðari tíma í starfi sínu sem landsliðsþjálfari, ef aðeins er horft í frammistöðu liðsins innan vallar. Íslenska landsliðið vann sigur á Venesúela og náði jafntefli gegn Albaníu á útivelli í fyrradag.

Hetjuleg barátta liðsins vakti athygli, samstaða og baráttan sem einkenndi íslenska liðið í mörg ár hafði ekki sést í stjórnunartíð Arnars. Þarna skein hún hins vegar í gegn og skilaði það dramatísku stigi og meðbyr í seglin.

Íslenska liðið er taplaust í sex leikjum í röð undir stjórn Arnars, ungir leikmenn hafa öðlast mikla reynslu undanfarið ár og með hjálp eldri og reyndari leikmanna horfir til betri vegar.Íslenska þjóðin hefur elskað að hata Arnar í starfi en á næsti ári verður gerð krafa á að liðið nái betri árangri en áður.

Íslenska liðið tekur þá þátt í undankeppni Evrópumótsins þar sem möguleiki er á góðu tækifæri til að koma sér inn á stórmót. Arnar Þór hefur boðað það að fleiri eldri leikmenn snúi aftur og hefur þar nefnt Sverrir Inga Ingason og Jóhann Berg Guðmundsson. Ljóst er að báðir myndu styrkja liðið verulega og möguleikinn á að komast inn á Evrópumótið með þá í liðinu er meiri en án þeirra.

Arnar Þór hefur setið undir mikilli gagnrýni, oftast nær hefur hún átt rétt á sér en hann á líka skilið hrós fyrir að snúa við taflinu. Eins og staðan er í dag er hægt að leyfa sér að vera bjartsýnn fyrir komandi tímum, það var ekki hægt fyrir örfáum mánuðum síðan.

Nú þegar íslenskt knattspyrnuáhugafólk gerir meiri kröfur til liðsins verður líka meiri pressa á Arnari, standi liðið ekki undir væntingum byrja háværar gagnrýnisraddir að heyrast á nýjan leik og starf Arnars gæti hangið á bláþræði. Í dag er hins vegar hægt að segja að Arnar sé á réttri leið með liðið en það getur eins og annað í heimi íþrótta, verið fljótt að breytast ef halla fer undan fæti.