Úrslitakeppnin í NBA-deildinni er loksins farin að rúlla af stað. En hún fer fram í svokallaðri „búbblu“ nálægt borginni Orlando í Flórída. Þau lið sem fyrir fram eru talin sigurstranglegust eru Los Angeles Lakers, með LeBron James og Anthony Davis í fararbroddi, og Milwaukee Bucks, með Giannis Antetokounmpo.

Fæstir búast við því að ríkjandi meistarar, Toronto Raptors, geti endurtekið leikinn í ár. Enda án Kawhi Leonard sem leiddi liðið þá. Liðið náði þó öðru sætinu í austurdeildinni og hefur þegar unnið fyrsta leikinn í viðureign sinni gegn Brooklyn Nets.

Austanmegin hefur Boston Celtics þegar tekið forystu gegn Philadelphia 76ers og Indiana Pacers mætir Miami Heat. Pressan er mest á Bucks, sem mætir „heimamönnum“ í Orlando Magic. Giannis og félagar tryggðu sér sæti í úrslitakeppninni í febrúar, fyrr en nokkurt lið í sögunni.

Vestanmegin er ein athyglisverðasta rimman á milli Houston Rockets og Oklahoma City Thunder, þá helst út frá sögulegu sjónarmiði. Russell Westbrook er genginn til liðs við Houston og sinn gamla liðsfélaga James Harden. En þeir voru báðir partur af ógurlegu þríeyki, ásamt Kevin Durant, hjá Oklahoma.

Denver Nuggets hefur þegar tekið forystuna gegn Utah Jazz og Los Angeles Clippers gegn Dallas Mavericks en þetta er í fyrsta sinn sem liðin úr borg englanna eru í tveimur efstu sætum vesturdeildarinnar. Pressan er þó öllu meiri á gamla stórveldið Lakers sem mætir Damian Lillard og félögum í Portland Trail Blazers.