Þeir formenn körfuboltadeilda sem Fréttablaðið náði í skottið á í gær voru sammála ákvörðun KKÍ um að blása mótið af. Lítið annað var í stöðunni. Þeir eru allir sammála um að körfuboltinn muni rísa upp að nýju. Fjárhagsleg staða liða er misjöfn en það gráta allir úrslitakeppnina. Þar séu stóru upphæðirnar. Í tilkynningu KKÍ sagði að ljóst væri að mörg félög muni lenda í fjárhagsvanda vegna talsverðs tekjumissis, þar var átt við úrslitakeppnina.

Ingvi Hákonarson, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, segir að félagið tapi miklu á að það sé engin úrslitakeppni. Hann styðji þó ákvörðun KKÍ. „Í úrslitakeppni koma 900-1.000 manns og sjoppan skilar sínu, fyrirtækin vilja koma sterkar inn með stærri styrk og taka jafnvel aukaskilti fyrir sjónvarpsútsendingar. Ég er ekki með tölu yfir hvað við erum að tapa á þessu en þetta er hellingur.“

Hilmar Júlíusson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, segir að stuðið í úrslitakeppninni skili deildinni töluverðum tekjum enda geri Garðbæingar vel við sína stuðningsmenn. „Það þarf engan snilling til að sjá hvar peningarnir eru. Ásgarður tekur um þúsund manns í sæti og fyrir leiki erum við með sjoppuna og hamborgara en einnig Dúllubar og Justin Shouse hefur verið að gera vængi með bjórnum. Aðgangseyrir er að hafa alltaf minna og minna vægi. Allt þetta slagar hátt í það sama og aðgangseyrir.“

Guðni Fannar Carrico, formaður körfuknattleiksdeildar ÍR, segir að félagið sleppi ágætlega frá þessu. Aðalvesenið sé að koma leikmönnum til síns heima. „Frá því um helgina er þetta búið að vera eilífðarvesen. Georgi Boyanov fór af landinu klukkan fimm á miðvikudag og hann er enn þá að ferðast til að að komast heim til sín í Búlgaríu. Þetta er engin smá flækja.“ Þess má geta að viðtalið var tekið um miðjan dag í gær.

Ingvi hafði svipaða sögu að segja. „Við vorum að falla á tíma með að fá tilkynninguna því það varð alltaf erfiðara að fá flug. Þetta er að takast og síðustu fara í fyrramálið (í dag). Maður er ekki alveg að ná utan um þetta allt.“

Stjörnumenn voru búnir að ákveða að ef blásið yrði lífi í mótið myndu þeir mæta með íslenskan hóp til leiks. „Við tókum ákvörðun á sunnudag um að okkar leikmenn færu heim og þeir fóru á mánudag og þriðjudag. Það voru allar fjárhagslegar forsendur fyrir veru þeirra hér farnar og ef það yrði úrslitakeppni hefðum við mætt með íslenskan hóp. Okkur fannst það bara svo lítill möguleiki. Við gátum ekki beðið eftir ákvörðun og því fóru þeir til síns heima,“ segir Hilmar.