Eftirlitsmaður KSÍ á bikarúrslitaleiknum um helgina skilaði af sér skýrslu til sambandsins í gær og mun aga- og úrskurðarnefnd KSÍ úrskurða í dag um skrílslæti Víkinga. Búast má við að félagið fái sekt en kveikt var á blysum í stúkunni og einstaklingur hljóp inn á völlinn. Fleiri myndir frá laugardeginum má sjá hér fyrir neðan.

Víkingur sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem félagið harmar mjög framkomu einstakra stuðningsmanna sem settu ljótan svip á leikinn.

Öll gæsla á leiknum var í höndum KSÍ og komu félögin þar hvergi nálægt. Magnús Kristinsson, sem var í gæslunni á leiknum sem sjálfboðaliði fyrir björgunarsveitirnar, skrifaði færslu á Facebook sem hefur farið víða og var meðal annars deilt inn í hverfasíðu 108, heimahverfi Víkinga.

Þar segir Magnús að hann muni ekki taka þátt í gæslu á fleiri bikarleikjum meðan öryggi gæslufólks verði ekki betur tryggt af KSÍ. Hann segir í samtali við Fréttablaðið að þó langflestir hafi verið að skemmta sér vel og fallega hafi skemmdu eplin verið of mörg.

„Ég er ekki tilbúinn að taka að mér svona á meðan öryggi mitt og minna félaga er ekki tryggt. Ég upplifði mig ekki öruggan.

Ég var samt ekki í verstu aðstæðunum. Félagar mínir sem voru uppi í stúkunni voru í verri málum en ég,“ bætir Magnús við. Hann segir að rusl og svívirðingar hafi flogið yfir gæsluliðið með reglulega millibili. Kveikt hafi verið á blysum og hlaupið inn á völlinn. „Það var umræða eftir leik um að hegðun á þessum úrslitaleikjum sé að fara versnandi.

Séu myndirnar skoðaðar má sjá lítil börn í þessum hóp. Ég spyr hreinlega hvar foreldrarnir voru.“

Hann bendir á að flestir á leiknum hafi verið þarna til að hvetja sitt lið og skemmta sér. „En þau sitja eftir þessi skemmdu epli.“

Heimir Gunnlaugsson, formaður knattspyrnudeildar Víkings, vildi lítið bæta við yfirlýsinguna.

„Það er auðvitað óásættanlegt að haga sér svona gagnvart fólki sem er að sinna sjálfboðaliðastörfum.“

Slys og sektir

Öll notkun blysa er stranglega bönnuð á leikvöngum á Íslandi. Árið 2013 slasaðist ungur áhorfandi á leik í neðri deild eftir að stuðningsmaður kveikti á blysi í áhorfendastæði. Þá skrifaði KSÍ yfirlýsingu þar sem sagði að slysið sýndi hversu mikil hætta getur skapast í námunda við blysin. Marek Czeski þurfti að greiða Stjörnunni rúmlega 1,2 milljónir króna vegna atviks á leik liðsins gegn Lech Poznan árið 2014. Marek hljóp þá inn á völlinn en var hent út skömmu síðar. Stjarnan fékk sekt frá UEFA upp á 1,2 milljónir fyrir atvikið.

Hér að neðan má sjá atvikið en myndbandið er af vef Vísis.

Fréttablaðið/Anton Brink
Fréttablaðið/Anton Brink
Fréttablaðið/Anton Brink
Fréttablaðið/Anton Brink
Fréttablaðið/Anton Brink
Fréttablaðið/Anton Brink
Fréttablaðið/Anton Brink
Fréttablaðið/Anton Brink