Sívaxandi þáttur í utanumhaldi fótboltaliða er taktísk greining út frá upptökum á æfingum og leikjum liða, leikgreining og ýmiss konar gagnagreining.

Arnar Þór Viðarsson segir að þegar hann tók við sem yfirmaður knattspyrnumála hjá knattspyrnusambandi Íslands, KSÍ, árið 2019 hafi staða mála verið greind hvað þennan hluta varðar hjá sambandinu.

Þá hafi komið í ljós að þessu var töluvert ábótavant og síðan þá hafi verið stigin skref í átt til þess að bæta úr því.

„Það var alveg ljóst að við þurftum að bæta þennan þátt svo um munaði til þess að dragast ekki aftur úr með þróun okkar fótboltamanna.

Fyrsta skrefið var að útvega okkur búnaðinn og nú eru allir vellir liðanna í Pepsi Max-deildinni komnir með myndavél sem getur tekið upp efni sem nýst getur við taktíska greiningu og tölfræðiúrvinnslu úr leikjum,“ segir Arnar Þór.

„Félögin í Pepsi Max-deildinni eru svo komin með aðgang að sams konar GPS-vestum og VEO myndavélum og úrvinnsluforriti þannig að nú eru þau gögn og þær tölur sem félögin vinna með samanburðarhæf.

Þá er aðbúnaðurinn hjá landsliðunum orðinn umtalsvert betri en hann var þegar ég hóf störf hjá KSÍ,“ segir landsliðsþjálfarinn enn fremur.

„Næsta skref er svo að þjálfa íslenska einstaklinga, bæði þjálfara og aðra sem hafa áhuga á þessum hluta þjálfunar, í því að geta unnið fyrir félögin og landsliðin okkar.

Hjá A-landsliðinu til að mynda erum við Tom Joel sem sér um líkamlega þjálfun á leikmönnum og úrvinnslu gagna hvað líkamlegt atgervi leikmanna varðar.

Við tökum upp allar æfingar liðsins og það sama á við um yngri landsliðið, og greinum þær og förum yfir með leikmönnum. Svo höfum við auðvitað aðgang að okkar eigin leikjum.

Við kaupum hins vegar taktískan leikgreiningarpakka á andstæðingum okkar sem við notum með okkar eigin leikgreiningu sem við gerum sjálfir,“ segir Arnar Þór, sem mun mæta á leiki Þýskalands og Norður-Makedóníu á EM til þess að greina þau lið fyrir komandi leiki liðanna í undankeppni HM 2022.

„Það er hins vegar draumurinn að geta verið með íslenskan leikgreinanda í teyminu okkar og það er ekkert launungarmál að við ræddum við Bjarka Má Ólafsson um að taka það starf að sér þegar við vorum að mynda teymið í kringum A-landsliðið í janúar fyrr á þessu ári, en hann var ekki laus á þeim tímapunkti.

Ég fagna þeirri umræðu sem Bjarki Már hefur sett af stað um leikgreiningu og gagnagreiningu hér heima og því framtaki hans að leiða saman þá sem hafa áhuga á þessu og halda námskeið og fyrirlestra. Þetta er eitthvað sem við munum taka inn í þjálfaranámskeið KSÍ í meira mæli í framhaldinu.

Þá er það mikið gleðiefni að Skagamaðurinn Arnór Snær Guðmundsson hafi nýverið samið við Noregsmeistara Bodö/Glimt um að starfa sem fitnessþjálfari í akademíu meistaranna.

Við viljum fjölga í flóru þeirra sem sérhæfa sig á þessu sviði og við erum að vona að samstarf KSÍ og Háskólans í Reykjavík, um mælingar á leikmönnum yngri landsliðanna okkar, leiði af sér fjölgun á sérhæfðum þjálfurum í líkamlegu atgervi og gagnagreiningu,“ segir yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ.