Íslenska karlalandsliðið í handbolta mætir á morgun Portúgal í öðrum leik liðanna af þremur á stuttum tíma, en liðin leiða saman hesta sína að Ásvöllum í undankeppni EM 2022. Liðin áttust við ytra í miðri viku en þá fór portúgalska liðið með tveggja marka sigur af hólmi. Fréttablaðið fékk Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfara kvennaliðs Vals og aðstoðarþjálfara íslenska kvennalandsliðsins, til þess að rýna í leik liðanna og spá í spilin fyrir framhaldið.

„Mér fannst tempóið svolítið hægt í sóknarleiknum í fyrri hálfleik en það batnaði í seinni hálfleik og þá var það aðallega slæm nýting í dauðafærum sem varð okkur að falli. Ég held að Guðmundur [Þórður Guðmundsson, þjálfari íslenska liðsins] sé aðallega að fara yfir seinni bylgjuna í hraðaupphlaupum milli leikja hvað sóknarleikinn varðar. Við erum að spila þar krossblokk sem þarf að fínstilla enn frekar,“ segir Ágúst Þór um spilamennsku Íslands í Portúgal á miðvikudagskvöldið síðastliðið.

„Ef við snúum okkur að varnarleiknum þá fannst mér hann heilt yfir fínn í leiknum. Það er kannski helst að við þurfum að fara yfir hvernig við verjumst þegar þeir spila sjö á sex. Við náðum að gera það vel þegar við mættum þeim á EM fyrr á þessu ári en það munaði mikið um þegar Alexander [Petersson] fór meiddur af velli. Varnarleikurinn hægra megin var ekki nægilega sterkur þegar hans naut ekki við. Svo verðum við að fá stöðugri markvörslu allan leikinn. Ágúst Elí [Björgvinsson] hrökk í gang undir lokin en við þurfum jafnari vörslu,“ segir þjálfarinn þrautreyndi.

„Mér fannst Elvar Örn [Jónsson] eiga góðan leik í Portúgal og Viggó Kristjánsson átti góða innkomu. Bjarki Már [Elísson] skilaði prýðilegu verki en hann þarf hins vegar nýta færin sín betur. Sama má segja um Sigvalda Björn [Guðjónsson] í hinu horninu. Klúðrin af vítalínunni voru líka dýr.

Svo finnst mér Gísli Þorgeir [Kristjánsson] mega fá aðeins meira traust. Gísli Þorgeir þarf að skynja það að hann þurfi ekki að sanna sig þegar hann kemur inn. Mér fannst hann fara full snemma í árásir og klippingar og það vantaði aðeins meiri ró í aðgerðir hans,“ segir Ágúst.