Það bíður ærið verkefni þess sem vinnur komandi forsetakosningar hjá spænska knattspyrnufélaginu Barcelona. Skuldir félagsins hafa aukist undanfarin misseri og nú er svo komið að þær eru taldar nema um það bil milljarði evra. Þar af séu skuldir upp á hálfan milljarð sem eru á gjalddaga síðar á þessu ári.

Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri Greiningar hjá Íslandsbanka og sérfræðingur í fjármálum í íþróttum, segir nokkra hluti vega þyngst þegar rýnt sé í slæma fjárhagsstöðu Katalóníufélagsins.

„Þessir fjárhagserfiðleikar hjá Barcelona voru farnir að myndast áður en kórónaveiran skall á og það má segja að rekstur félagsins síðustu fimm til sex árin hafi verið mjög slæmur.

Verkefnið hjá nýjum forseta Barcelona og stjórn hans, sem kosin verður í lok janúar, verður að búa til trúverðuga fjárhagsáætlun sem sannfærir lánardrottna um að félagið geti greitt skuldir sínar til lengri tíma litið.

Skammtímaskuldir sem hafa hlaðist upp eru orðnar verulegar en það er full mikil einföldun að halda því fram, eins og sums staðar hefur heyrst, að þar sem ekki sé hægt að greiða þær eins og er muni þær leiða til þess að Barcelona verði gjaldþrota,“ segir Björn Berg um stöðu mála hjá Barcelona.

Björn Berg Gunnarsson, sérfræðingur um fjármál í íþróttum.

„Þó svo Barcelona sé eitt tekjuhæsta félag heims og fái stærstu auglýsingasamninga sem þekkjast í íþróttum, hefur félaginu tekist að safna umtalsverðum skuldum. Þar er aðalorsökin gríðarlega hár launakostnaður, en fyrir tekjufall liðsins vegna COVID var launahlutfallið ríflega 80 prósent og því augljóslega ósjálfbært eins og staðan er í dag. Þyngst vega greiðslur til Lionel Messi, sem einn og sér þénar á við nokkur minni liða La Liga samanlagt.

Þá hafa kaup leikmanna á borð við Ousmane Dembele, Antoine Griezmann og Philippe Coutinho hvorki skilað sér í árangri innan vallar né fjárhagslegum ábata. Þetta eru dýrir leikmenn sem hafa fallið í söluvirði og af þeim sökum hafa eignir félagsins rýrnað. Barcelona verður að minnka launakostnað sinn en á sama tíma gæta þess að hafa á að skipa liði í hæsta gæðaflokki sem skilar titlum og auglýsingatekjum,“ segir hann enn fremur um ástæðu þess að félagið sé í jafn slæmum málum fjárhagslega og raun ber vitni.

„Sú tekjuáætlun sem síðast var lögð fram mun ekki ganga upp þar sem forsendur hennar eru brostnar.

Þannig gerði stjórnin ráð fyrir að geta tekið við áhorfendum í fjórðung sæta á Nou Camp í desember og það gekk ekki eftir.

Þá spáðu þeir að félagið gæti fyllt heimavöllinn frá og með febrúar á þessu ári og það er ljóst að það mun ekki gerast. Þar að auki munu áætlaðar tekjur af safni félagsins og keppnisferðum utan landsteinanna, svo eitthvað sé nefnt, ekki skila sér,“ segir fjármálasérfræðingurinn um áhrif utanaðkomandi þátta.

Ekki hægt að bjarga málum með nýjum fjársterkum eiganda

„Eignarhald á spænskum félögum er þannig að það er illmögulegt að fá inn nýja eigendur til þess að greiða upp skuldir og spýta peningum inn í félögin, eins og þekkist sem dæmi á Englandi. Af þeim sökum þarf Barcelona að horfa inn á við og breyta rekstri sínum til frambúðar. Það er ljóst að með núverandi fyrirkomulagi verður erfitt að standa straum af afborgunum og vöxtum og því bíður stjórnarinnar ærið verkefni.

Sennilega verður lengt í skammtímaskuldum, hafi lánardrottnar trú á rekstri félagsins til framtíðar. Fjármögnunarkjör eru almennt nokkuð góð um þessar mundir. Sala á leikmönnum mun ekki ein og sér bjarga fjárhag félagsins, bæði þar sem mun minni verðmæti er að finna í leikmannahópi liðsins í dag en oft áður og það má illa við því að veikjast enn frekar, eigi það að vera samkeppnishæft um sæti í Meistaradeild Evrópu, sem er gjöful tekjulind.

Það er þó lífsnauðsynlegt fyrir félagið að halda áfram að lækka launakostnað. Það hefur þegar verið gert með þrennum hætti; brotthvarfi launahárra leikmanna, eilitlum launalækkunum og frestun launagreiðslna. Meira þarf þó til. Þessi skuldastaða mun verða til þess að möguleikar Barcelona á að berjast um stærstu stjörnur heims næstu árin verða minni og umtalsverður hluti tekna félagsins næstu áratugi fer í að greiða af skuldum. Þá er líklegt að félagið þurfi að fresta fyrirhuguðum framkvæmdum á Nou Camp.

Fram undan er svo ákvörðun um það hvort það eigi að freista þess að framlengja samninginn við Messi. Líklega verður ómögulegt að halda Messi áfram á sams konar launum, þó það muni minnka auglýsingatekjur að einhverju leyti fari svo að hann yfirgefi félagið.

Barcelona er það rótgróið vörumerki að þrátt fyrir að leikmenn af þeirri stærðargráðu sem Messi er yfirgefi herbúðir félagsins og jafnvel þó svo árangurinn láti á sér standa tímabundið, er ekki víst að það hafi umtalsverð áhrif á möguleikann til þess að afla styrktarsamninga, það hefur reynsla Manchester United sem dæmi sýnt okkur,“ segir Björn um hvað sé til ráða til þess að lappa upp á bókhaldið.