Hinn tyrkneski Cem Bolukbasi, er lifandi sönnun þess að hægt er að vinna sig úr heimi rafíþrótta yfir í að keppa á einni sterkustu mótaröð Formúlunnar. Árið 2017 hóf Cem að keppa á sviði rafíþrótta í F1 Esports mótaröðinni, á næsta tímabili mun hann keyra alvöru kappakstursbíl í Formúlu 2.

Á dögunum var tilkynnt um það að Cem Bolukbasi, myndi verða annar ökumanna Charouz Racing System í Formúlu 2 mótaröðinni á næsta tímabili. Cem er fyrsti ökumaðurinn til þess að vinna sig upp úr svokölluðum hermikappakstri í heimi rafíþrótta yfir í Formúlu 2 mótaröðina.

,,Mér hefur ekki gefist ráðrúm til að átta mig á þessari stöðu. Þetta verður hins vegar raunverulegra með degi hverjum. Hjá mér er þetta stór draumur að rætast," sagði Cem í viðtali eftir að tilkynnt hafði verið um vistaskipti hans.

GettyImages

Fjögurra ára ferill

Það má í raun segja að ferill Cem Bolukbasi hafi hafist af alvöru árið 2017 þegar að hann hóf að taka þátt í rafíþróttamóti Formúlu 1, F1 Esport Series. Hann tók þátt í mótaröðinni á árunum 2017 og 2018 af fullum krafti en árið 2019 tók hann bæði þátt í þeirri mótaröð sem og GT4 European Championship mótaröðinni þar sem hann fékk sína fyrstu alvöru reynslu af alvöru kappakstri utan rafíþrótta.

Frumraun Cem á því sviði gekk vel og hann tryggði sér sæti tímabilin 2020 og 2021 í mótaröðinni. Árið 2021 fékk hann einnig tækifæri í F3 Asíu mótaröðinni þar sem að hann vann meðal annars sinn fyrsta sigur og endaði í 5. sæti í stigakeppni ökumanna.

Fékk tækifærið í Formúlu 2 undir lok síðasta tímabils

Það var síðan undir lok síðasta árs sem Cem fékk tækifæri til þess að keyra Formúlu 2 bíl í prófunum sem áttu sér stað í Abu Dhabi. Honum tókst að heilla þar og mun nú keyra Formúlu 2 bíl Charouz á næsta tímabili.

,,Ég var í Abu Dhabi sem rafíþróttaökumaður í F1 Esports mótaröðinni. Að snúa aftur þangað fjórum árum síðar og keyra Formúlu 2 bíl var býsna óraunverulegt fyrir mig. Ég horfði á lokakappaksturinn í Formúlu 1 deginum áður og var síðan farinn að keyra sömu braut á Formúlu 2 bíl, ég var eins og krakki að upplifa draum minn."

Cem segir það alveg öruggt að hann væri ekki á þeim stað sem hann er á núna ef ekki væri fyrir rafíþróttagrunn hans. ,,Án þess hefði ég aldrei komist á þann stað sem ég er á núna. Ég verð fyrsti rafíþróttamaðurinn til að taka þetta skref og fyrir mér er það mikilvægt. Ég get gefið öðrum spilurum von, ef einn einstaklingur sér að ég get þetta, þá munu þeir trúa að fleiri geti fert það."

Tímabil Cem í Formúlu 2 hefst með prófunum í Bahrain 2.-4. mars næstkomandi. Keppnistímabilið sjálft hefst síðan tveimur vikum síðar.