Upptaka frá leik KR og FH í Visa Sport deildinni árið 1991 hefur litið dagsins ljós á YouTube. Upptakan er að mörgu leiti sérstök því þarna er um að ræða leik þar sem að í eitt af fáum skiptum var hljóðnemi settur á dómara leiksins.

Þetta var gert til þess að sýna frá störfum dómara og það frá allt öðru sjónarhorni en tíðkast og af upptökunni að dæma, hafði Gísli Guðmundsson dómari leiksins í nægu að snúast.

Það var dagskrárgerðarmaðurinn og fyrrum knattspyrnumaðurinn Gunnlaugur Jónsson sem vakti athygli á myndbandinu í færslu á Twitter í gærkvöldi en mynbandið er sett inn af Stefáni Jónssyni.

Leikurinn fór fram þann 31. maí árið 1991 og honum lauk með markalausu jafntefli, Meðal leikmanna KR í leiknum má nefna Atla Eðvaldsson, Rúnar Kristinsson sem er einmitt núverandi þjálfari KR, Heimi Guðjónsson og Pétur Pétursson.

Meðal leikmanna í liði FH sem var stýrt af Ólafi Jóhannessyni má nefna Hörð Magnússon, Ólaf Helga Kristjánsson og Guðmund Hilmarsson.

Á einum tímapunkti í leiknum liggur leikmaður FH sárþjáður á vellinum. Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH hleypur inn á völlinn til að veita honum aðhlynningu og Gísli Guðmundsson, dómari leiksins spyr hann hvar börurnar séu.

Eins og við höfum margoft séð hjá Ólafi getur hann verið hnyttinn og þó að mikið gengi á, svaraði hann Gísla með kímni að vopni:

,,Ég veit það ekki (hvar börurnar eru). Ég vinn ekki hérna, ekki nema kannski leiki."

Myndbandið má sjá hér fyrir neðan og leikskýrslu frá leiknum er hægt að finna hér: