Í dómssal í dag, á fimmta degi dómsmáls Kate Greville gegn fyrrum kærasta sínum Ryan Giggs, var spiluð upptaka af símtali Emmu Greville, systur Kate til neyðarlínunnar eftir að Giggs er sagður hafði skallað Kate.

Á upptökunni má heyra konu biðja lögregluna um að koma undir eins og í bakgrunni heyrist í annarri, hágrátandi konu. ,,Þarf hún á sjúkrabíl að halda, konan sem öskrar?" spyr þá starfsmaður neyðarlínunnar sem tók við símtalinu.

„Getið þið komið fljótt? Hann skallaði systur mína beint á andlitið," er þá svarað. Símtalið átti sér stað að kvöldi til þann 1. nóvember árið 2020. Neyðarlínan spurði hvort viðkomandi vissi nafnið á árásarmanninum.

„Ryan Giggs," var svarað til baka. „Knattspyrnumaðurinn Ryan Giggs," þetta svar kom starfsmanni neyðarlínunnar á óvart:

„Hinn eini sanni Ryan Giggs?" var svarið á móti.

Ein af mörgum ásökunum

Ryan Giggs, fyrrum leikmaður Manchester United og goðsögn í sögu félagsins er sakaður um ofbeldi gagnvart fyrrum kærustu sinni, Kate Greville. Auk þess er hann sakaður um að hafa beitt hana stjórnandi og þvingandi hegðun.

The Athletic hefur tekið saman allar ásakanirnar á hendur Giggs og eru þær eftirfarandi auk meintrar árásar sem á að hafa átt sér stað í nóvember árið 2020:

  • Að hafa sent fyrrum kærustu skilaboð, og/eða blokkað hana þegar að hún var úti að skemmta sér með vinkonum sínum.
  • Hótaði að senda tölvupósta á vini hennar sem og samstarfsmenn um kynferðislegar athafnir þeirra og hegðun.
  • Hent henni (Greville) og eigum hennar út úr húsinu þegar að hún spurði Giggs út í samband hans við aðrar konur.
  • Á Stafford hótelinu í Lundúnum, hafi hann sparkað í bak hennar, hent henni út úr herberginu án klæða og í kjölfarið hent tösku hennar í hana eftir að Greville sakaði Giggs um að hafa reynt við aðrar konur.
  • Ítrekað sent óæskileg skilaboð og hringt óæskileg símtöl til hennar og vina hennar þegar að hún reyndi að slíta sambandi þeirra.
  • Mætti ítrekað óumbeðinn á heimili hennar, vinnustað sem og líkamsræktarstöð eftir að hún reyndi að binda enda á samband þeirra.

Giggs hefur neitað sök í öllum liðum en undanfarna mánuði hefur hann verið laus gegn tryggingu gegn ákveðnum skilyrðum. Hann hefur ekki mátt setja sig í samband við Kate Greville né Emmu systur hennar.