Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar hjá Knattspyrnusambandi Íslands segir í samtali við DV að uppsögn Eiðs Smára Guðjohnsen úr starfi aðstoðarþjálafar íslenska karlalandsliðsins tengist persónulegum málefnum Eiðs Smára.

,,Við getum svosem ekki farið neitt nánar út í það. Þetta er sameiginleg ákvörðun. Uppsagnarákvæði í samningi Eiðs Smára var virkjað og hann hættir störfum 1. desember næstkomandi,“ segir Ómar um starfslok Eiðs Smára.

Heimildir DV herma að starfslokin tengist gleðskap eftir leik íslenska liðsins gegn Norður-Makedóníu á hóteli í Skopje fyrr í þessum mánuði. Ómar, sem var staddur á hótelinu, segir að gleðskapurinn hafi verið hófstilltur.

„Menn fengu sér þarna einn tvo bjóra eftir leikinn en annað var það ekki. Flestir fengu sér bara einn til tvö bjóra og fóru svo bara að sofa. Við höfum ekki áhyggjur af áfengi í tengslum við landsliðin almennt.

Það er ekki óalgengt að menn setjist niður eftir leikjatörn, sumir fá sér einn eða tvo drykki, aðrir ekki og svo fara menn bara að sofa. Við höfum ekki áhyggjur af þessu almennt,“ segir Ómar um gleðskapinn.

Hvað stöðu Arnars Þórs Viðarssonar sem þjálfara íslenska liðsins segir Ómar: „Arnar er bara með gildan samning við KSÍ og það hefur engin ákvörðun verið tekin um breytingar á honum. Þessi ákvörðun snýr bara að Eiði Smára og engin ákvörðun tekin um Arnar hvað þetta varðar.

Við munum hefja leit að aðstoðarmanni Arnars Þórs við fyrsta tækifæri. Það hefur bara sinn gang og vonandi náum við að vinna það verkefni hratt og örugglega. Það er að segja að finna rétta þjálfarann til þess að vinna með Arnari,“ segir Ómar um stöðu þjálfaramála.