Miðasala hófst á næstu leiki íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í undankeppni EM 2020 í hádeginu í dag. Þar mætir íslenska liðið Frakklandi 11. október næstkomandi á Laugardalsvellinum og svo Andorra á sama stað þremur dögum síðar.

Einungis nokkrar mínútur tók að selja alla miðana sem í boði eru á leikinn við Frakkland sem er ríkjandi heimsmeistari og trónir á toppi riðilsins ásamt Tyrklandi með 15 stig eftir sex umferðir.

Enn eru hins vegar til miðar á leikinn við Andorra sem er á botni riðilsins án stiga eftir sex leiki. Ísland er í harðri baráttu um að vera í tveimur efstu sætum riðilsins og komast þar af leiðandi beint í lokakeppni Evrópumótsins. Íslenska liðið er í þriðja sæti riðilsins með 12 stig.

Frakkar fóru með sannfærandi 4-0 sigur af hólmi þegar liðið fékk Ísland í heimsókn á Stade de France í fyrri umferð undankeppninnar. Þar skoruðu Samuel Umtiti, Oliver Giroud, Kylian Mbappé og Antoine Griezmann mörk franska liðsins í þeim leik.