Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, kom í Íþróttavikuna með Benna Bó sem sýnd er á Hringbraut á föstudagskvöldum. Gestur með honum var Hjörvar Hafliðason, doktor Football.
Þeir fóru yfir enska boltann en Bjarni styður Manchester United og hefur gert síðan hann var ungur. Upprisa Marcus Rashford þetta tímabilið kom til umræðu en hann hefur verið frábær á þessu tímabili. Hjörvar benti á að Rashford hafi náð að skilja sig frá góðgerðarbaráttu sinni.
„Rashford vinnur sína stærstu sigra utan vallar þegar hann var að berjast fyrir málefni skólabarna í Englandi. Það tók ábyggilega rosalega mikið á hann því hann var endalaust í viðtölum og það var mikið áreiti. Ég held að það sé ekkert hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd.
En Ronaldo er farinn og hann er orðinn aðalkallinn. Málið er að hann á 18 mánuði eftir af samning og það oft kveikir í mönnum. Hann vill verða sá launahæsti en PSG er hrifinn af honum. Ég hef heyrt frá Nick Pope þegar hann var að spila með Jóa Berg að Rashford hafi verið bestur á landsliðsæfingum. Langbestur.“