„Ég vil meina að þetta sé upphefð fyrir listgreinina sem fótbolti getur verið því Jack Grealish með fótbolta við tærnar er ekkert síðra áhorfs en að rölta um listasafn. Það er unun að horfa á hann spila fótbolta,“ segir Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri Enska boltans á Símanum Sport.

Í gær bárust fréttir af því að Jack Grealish væri að ganga til liðs við Manchester City frá Aston Villa fyrir 100 milljónir punda. Talað er um í breskum fjölmiðlum að City greiði Villa 75 milljónir punda og 25 milljónir í ýmsa bónusa.

Hann var sagður á leið í læknisskoðun og ætti aðeins eftir að skrifa nafn sitt á samninginn. Grealish bætist þannig í fámennan hóp knattspyrnumanna sem hafa kostað um og yfir 100 milljónir punda. Þá er þetta það langmesta sem enskt félag hefur greitt fyrir leikmann og verður Grealish einnig langdýrasti Bretinn. Gareth Bale var áður sá dýrasti þegar hann fór frá Tottenham til Real Madrid.

Peningarnir sem City greiðir fyrir Grealish eru ofboðslegir, hátt í 18 milljarðar, og bendir Tómas á að hann hafi aldrei spilað Evrópuleik, sé nýkominn aftur í efstu deild á Englandi, hafi verið töluvert meiddur á síðustu leiktíð og þá hafi honum ekki verið treyst til að vera í byrjunarliði enska landsliðsins í sumar. Grealish skoraði þó sex mörk og gaf 12 stoðsendingar.

Birkir Bjarnason og Jack Grealish takast á á æfingu Aston Villa

„Það er fullt af hlutum sem hljómar eins og hann sé ekki 100 milljóna punda leikmaður en trúlega er hann það samt. Auðvitað er þessi verðmiði galinn en það erfiðasta í fótbolta er að skora mörk. Og það er erfitt að vera skemmtikraftur en hann er það svo sannarlega, með litlu sokkana sína og að búa eitthvað til. Ef hann leggur allt sitt traust á Pep Guardiola og bætir ofan á sinn leik því sem hann kann fyrir þá verður þetta sýning næstu árin – hann er það góður í fótbolta.“

Tómas segir að þessi kaup séu ákveðin upphefð á ný fyrir lúxusleikmanninn. Fyrir alla þá sem vilja skemmta áhorfendum heima í stofu eða á vellinum.

„Nú eiga leikmenn að hlaupa mikið og hratt og helst hratt og mikið. Listamenn eins og hann hafa aðeins gleymst og þetta er gífurlega spennandi.“

Tómas bendir á að það sé pressa að vera sá dýrasti. Verðmiðinn geti verið þungur baggi að bera ef illa gangi. „Um leið og það byrjar að ganga illa þá verður kaupverðið myllusteinn um hálsinn.

Ef viðkomandi leikmaður stendur ekki undir væntingum þá er blessaða kaupverðið dregið inn í jöfnuna.

En ég hef engar áhyggjur af Grealish. Ég held að allir sem hafa komið til City og spilað undir stjórn Guardiola hafa orðið betri.“

Tómas Þór Þórðarson

Veislan byrjar með sjálfum Glenn Hoddle

Síminn Sport verður með alla leiki í beinni útsendingu í vetur frá enska boltanum. Tómas segir að það sé mikil spenna í kortunum hjá Símanum en deildin hefst 13. ágúst. „Ef allt gengur upp fyrir fyrsta leik verða Eiður Smári og Logi Bergmann úti með Glenn Hoddle á stórslag Tottenham – Manchester City. Það er auðvitað Covid en við vonum það besta. Á laugardeginum er Manchester United gegn Leeds og þar verður Peter Schmeichel með okkur í gegnum fjarfundarbúnað. Covid gaf okkur fjarfundarbúnaðinn og við munum nýta okkur hann áfram. Við fáum svo aukagesti í vetur, allt að 38 gesti í miðri viku. Fyrstu gestir verða Glen Johnson og Lee Dixon,“ segir Tómas spenntur fyrir komandi leiktíð.

Glenn Hoddle, verður á hliðarlínunni með Símanum Sport í fyrsta leik þegar City mætir Tottenham.