Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands sem og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptamálaráðherra snæddu í gær hádegisverð með íslenska landsliðinu í knattspyrnu sem er nú statt úti í Englandi vegna Evrópumótsins í knattspyrnu. Liðið leikur sinn annan leik á mótinu seinna í dag þar sem andstæðingurinn er landslið Ítalíu og í Bítinu á Bylgjunni í morgun leysti Lilja Dögg frá skjóðunni um það hvað hafi verið á boðstólnum í hádegisverðinum í gær.

Landsliðið er með höfuðstöðvar í Crewe á meðan mótinu stendur og segir Lilja aðstöðu liðsins í algjörum toppklassa. Þá hafi maturinn sem boðið var upp á í gær ekki verið síðri en að sögn Lilju var boðið upp á lax, nóg af grænmeti kartöflusalat sem og pasta.

Þetta hafi hún og forsetinn borðað með bestu list ásamt landsliðinu sem þarf að huga vel að líkamlegri og andlegri endurheimt milli leikja.

Ylfa Helgadóttir er kokkur kvennalandsliðsins og hún segir mikilvægasta verkefni sitt á EM að framreiða nærandi og spennandi mat. Hún tók fisk og skyr með sér frá Íslandi og er að læra af næringarfræðingnum í liði Íslands samhliða því að elda

Leikur Íslands og Ítalíu fer fram á Manchester City Academy leikvanginum í Manchester og hefjast leikar klukkan 16:00. Um mikilvægan leik er að ræða fyrir bæði lið sem eru án sigurs eftir fyrstu umferðina. Sigur í dag kæmi liðunum skrefi nær átta liða úrslitum.

,,Það helsta sem skiptir máli er að hafa allt til sem þeim finnst best og gera þetta rétt. Elda þetta vel, að hráefnið sé gott og tímasetningar réttar. Þær þurfa að fá matinn á réttum tímasetningum,“ sagði Ylfa í samtali við Fréttablaðið á dögunum.