Max Verstappen, ökumaður Red Bull Racing sem á dögunum tryggði sér sinn annan heimsmeistaratitil í röð í Formúlu 1 segist hafa upplifað öðruvísi tilfinningar er hann tryggði sér sinn annan heimsmeistaratitil borið saman þegar hann tryggði sér sinn fyrsta á síðasta tímabili.
„Það er náttúrulega vegna þess að síðasta tímabil er svo frábrugðið því sem við erum að upplifa núna," segir Verstappen í samtali við F1.com. „Við erum með nýja bíla í höndunum og með því er verið að keppa um á bílum sem hegða sér öðruvísi í kappakstri.
Á hinn bóginn höfum við líka verið að vinna fleiri keppnir á yfirstandandi tímabili."
Á síðasta tímabili tryggði Verstappen sér titilinn á lokahringnum í lokakeppninni sem fór fram í Abu Dhabi. Hafði hann þar betur í baráttunni gegn sjöfalda heimsmeistaranum Sir Lewis Hamilton. Núna hefur hann tryggt sér sinn annan heimsmeistaratitil þegar fjórar keppnishelgar eru eftir af tímabilinu.
„Á síðasta tímabili, alveg fram að síðustu keppninni fann maður slæma tilfinningu því ég taldi okkur ekki vera lengur með hraðasta bílinn. Á þessu ári hefur allt annað verið uppi á teningnum."
Hann segir tilfinningarnar við að vinna sinn fyrsta heimsmeistaratitil alltaf vera ríkari heldur en þegar næstu titlar fylgja en segir titilinn sem hann hefur tryggt sér á yfirstandandi tímabili hins vegar standa upp úr, frammistöðulega séð.