Max Ver­stappen, öku­maður Red Bull Ra­cing sem á dögunum tryggði sér sinn annan heims­meistara­titil í röð í For­múlu 1 segist hafa upp­lifað öðru­vísi til­finningar er hann tryggði sér sinn annan heims­meistara­titil borið saman þegar hann tryggði sér sinn fyrsta á síðasta tíma­bili.

„Það er náttúru­lega vegna þess að síðasta tíma­bil er svo frá­brugðið því sem við erum að upp­lifa núna," segir Ver­stappen í sam­tali við F1.com. „Við erum með nýja bíla í höndunum og með því er verið að keppa um á bílum sem hegða sér öðru­vísi í kapp­akstri.

Á hinn bóginn höfum við líka verið að vinna fleiri keppnir á yfir­standandi tíma­bili."

Á síðasta tíma­bili tryggði Ver­stappen sér titilinn á loka­hringnum í loka­keppninni sem fór fram í Abu Dhabi. Hafði hann þar betur í bar­áttunni gegn sjö­falda heims­meistaranum Sir Lewis Hamilton. Núna hefur hann tryggt sér sinn annan heims­meistara­titil þegar fjórar keppnis­helgar eru eftir af tíma­bilinu.

„Á síðasta tíma­bili, alveg fram að síðustu keppninni fann maður slæma til­finningu því ég taldi okkur ekki vera lengur með hraðasta bílinn. Á þessu ári hefur allt annað verið uppi á teningnum."

Hann segir til­finningarnar við að vinna sinn fyrsta heims­meistara­titil alltaf vera ríkari heldur en þegar næstu titlar fylgja en segir titilinn sem hann hefur tryggt sér á yfir­standandi tíma­bili hins vegar standa upp úr, frammi­stöðu­lega séð.