Margt á­huga­fólk um UFC, sem hafði gert sér vonir um að næla sér í miða á bar­daga­kvöld sam­bandsins í London í mars, situr eftir með sárt ennið eftir slæma reynslu af fyrir­komu­lagi miða­sölu á bar­daga­kvöldið sem og verð­lagningu miðanna. Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars Nelson segir ljóst að margir Íslendingar sitji eftir með sárt ennið.

Gunnar Nel­son er einn af þeim sem mun berjast á bar­daga­kvöldinu, sem fer fram í O2-höllinni í London og mun hann þar mæta Banda­ríkja­manninum Daniel Rodrigu­ez í búrinu.

Hundruðir Íslendinga miðalausir

Fréttablaðið hefur fengið veður af raunum íslensks MMA-áhugafólks sem gerði sér vonir um að fá miða á bardagakvöldið. Nokkrir þeirra hafa reynt í tvo daga að ná miðum á kvöldið, fyrst í gegnum forsölu og nú í gegnum almenna miðasölu. Í bæði skiptin hafi ekkert gengið. Miðaverð hafi verið mjög skrýtið, ákveðið verðbil hafi verið gefið upp á miðum sem lausir voru, verðbil sem síðan stóðst ekki skoðun.

Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars Nelson segir að miðað við skilaboðin sem hafi dunið á honum eftir að opnað var fyrir miðasölu sé ljóst að margir Íslendingar hafi ekki náð að verða sér út um miða á bardagakvöldið, hann giskar á einhver hundruð Íslendinga.

Mikil og hávær gagnrýni hefur einnig komið fram á samfélagsmiðlinum Twitter eftir að miðasala UFC á bardagakvöldið hófst. Margir furða sig á miðaverðinu og þá var ljóst frá byrjun að mun færri myndu komast að en vildu í O2-höllina sem tekur rétt rúmlega 20 þúsund manns í sæti á UFC bardagakvöldum.

Sjálfur gerði fréttaritari tilraun til þess að komast í gegnum miðasöluna en fljótlega varð ljóst að það myndi lítið þýða. Forsölu lokið, aðeins 20 þúsund miðar upphaflega í boði og umræddur fréttaritari númer 50.875 í röðinni.

Þú ert númer 50.875 í röðinni...
Fréttablaðið/Skjáskot

MMA-blaðamaðurinn Peter Carroll er einn þeirra sem tjáir sig um vendingarnar á Twitter en hann segist hafa fengið fjöldamörg skilaboð frá MMA-áhugafólki sem gerði sér vonir um að komast á bardagakvöldið.

„Verðin á miðunum er skandall út af fyrir sig en það sem verra er að einstaklingar virðast vera að kaupa þá til þess að selja þá síðan á hærra verði. Það versta við að MMA er orðið að meginstraumsefni er að MMA aðdáendur hafa verið verðlagðir út af UFC bardagakvöldum.“

Almenn miðasala hófst á vefsíðunni Ticketmaster í morgun og mátti þar finna miða frá 112 pundum, því sem jafngildir tæpum 20 þúsund íslenskum krónum og alveg upp í rúmum 4700 pundum, því sem jafngildir 830 þúsund íslenskum krónum.

Á miðasölusíðunni AXS.com voru ódýrustu miðarnir verðlagðir á um 400 pund, því sem jafngildir rúmum 70 þúsund íslenskum krónum og dýrustu miðarnir, við bardagabúrið sjálft kostuðu um 7000 pund, eða rúma 1,2 milljón íslenskra króna.

Bardagakvöldsins hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu en þar mun heimamaðurinn Leon Edwards, góður kunningu og fyrrum andstæðingur Gunnars Nelson, reyna verja titil sinn í veltivigtardeildinni gegn Kamaru Usman sem hann hrifsaði titilinn af.

UFC hefur gert sitt í því að blása bardagakvöldið upp í hæstu hæðir með því að segja að það verði stærsta bardagakvöld sem haldið hefur verið í Evrópu. Lengi vel var umræðan á þá átt að stærri leikvangur, á borð við þjóðarleikvang Englendinga Wembley, yrði fyrir valinu en allt kom fyrir ekki.

Segja farir sínar ekki sléttar

UFC áhugafólk hefur verið duglegt við að viðra skoðanir sínar á miðasölunni fyrir umrætt bardagakvöld á samfélagsmiðlinum Twitter og hér má sjá bort úr umræðunni:

„Fáranlegt, enn einn íþróttin sem hefur misst öll tengsl við stuðningsmenn," skrifar Aaron Lloyd í færslu á Twitter og birtir með mynd af þremur miðum sem stóðu honum til boða á bardagakvöldið, hver um sig kostuðu miðarnir rúm 765 pund. Það hefði því kostað hann því sem jafngildir 135 þúsund íslenskum krónum að næla sér í þrjá miða.

Twitter notandinn Peregrin segir að UFC áhugafólk hefði átt að sniðganga bardagakvöldið í London. „Meirihluti fólks hefur verið verðlagt út af markaðnum og mun aldrei ná að sjá UFC með berum augum. Ömurlegt fyrir alvöru áhugafólk sem þénar ekki £££.“