Aron Guðmundsson skrifar frá Lundúnum

Pétur Marínó Jónsson, helsti sérfræðingur okkar Íslendinga um MMA, ritstjóri vefsíðunnar MMAfrettir.is og lýsandi hjá Viaplay, fór í Íþróttavikunni hjá Benna Bó yfir UFC bardaga kvöldsins þar sem að Gunnar Nelson snýr aftur í búrið og mætir Takashi Sato í Lundúnum.

Pétur mun sjá um að færa Íslendingum allt það helsta frá bardagakvöldinu í þráðbeinni hjá Viaplay í kvöld.

Í viðtalinu fór Pétur vel yfir andstæðing Gunnars, undirbúning Gunnars og stöðuna á honum, sóknartækifæri og helstu ógnir Satos og því er um fullkominn undirbúning að ræða fyrir bardagann með því að horfa á viðtalið hér fyrir neðan.

Pétur segir undirbúninginn hjá Gunnari fyrir bardagann hafa gengið mjög vel.

,,Undirbúningur hefur gengið mjög vel hjá honum og það sem er númer eitt, tvö og þrjú er sú staðreynd að hann er heill. Það hefur ekki alltaf verið þannig, auðvitað hafa menn verið að koma inn með einhver smávægileg meiðsli inn í bardaga en Gunnar er eins nálægt því að vera 100% og hægt er."

Hann er á því að aðal möguleikar Gunnars á sigri liggi í því að hann nái Sato í gólfið.

,,Það er alltaf klassískt. Hann er náttúrulega svo ótrúlega góður í gólfinu en er einnig hættulegur standandi. Ég hugsa að það sé samt þægilegra fyrir okkur aðdáendur Gunnars heima að hann taki bardagann niður í gólfið, þar á pappírum er hann mun betri," sagði Pétur Marínó Jónsson, ritstjóri MMA-frétta og lýsandi hjá Viaplay.

Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan.