Um 80 prósent þátttakenda í könnun UEFA gerir ráð fyrir að Ísland leggi Moldóvu í kvöld. Leikurinn verður síðasti leikur Íslands í H-riðlinum og er af flestum sparkspekingum álitinn sem skyldusigur.

Leikurinn fer fram á Zimbru vellinum sem tekur um 10.400 manns í sæti samkvæmt heimasíðu UEFA. Stærsta tap heimamanna á þessum velli var fimm núll ósigur gegn Englendingum árið 2012. Moldóva er í 175. sæti heimslistans og miðað við blaðamannafund landsliðsþjálfara liðsins, Engin Firat, þá er víða pottur brotin í fótboltanum þar í landi.

Liðin hafa mæst einu sinni áður, það var í september þar sem Ísland vann 3-0.

Engin þjálfari Moldovu.

Það hafa ekki margir þekktir knattspyrnumenn komið frá Moldóvu. Ætli þurfi ekki mest að hafa áhyggjur af Artur Ionita sem spilar með Cagliari á Ítalíu. Aðrir eru að spila meðal annars með liði Sherrif eða Vaduz sem slógu Val og Breiðablik úr Evrópukeppninni í sumar.

Markvörðurinn Alexei Koşelev spilar í Hollandi með Fortuna Sittard. Þeir sem hafa spilað flesta leiki í vörninni eru að spila með Voluntari, Petrocub, Sherrif og Astra, Miðjumennirnir koma frá liðum eins og Ufa, Krylya Sovetov, Sabail og Chindia Targoviste.

Sóknarmennirnir koma frá Fortuna Sittard og Vaduz.

Þjálfarinn er téður Engin Firat sem er að stýra liðinu í annað sinn. Hann tók við í lok október og stýrði liðinu gegn Frökkum þar sem stórstjörnur Heimsmeistarana rétt mörðu sigur. Hann er fæddur í Istanbul en spilaði aldrei sem atvinnumaður. Hann byrjaði sem aðstoðarmaður Horst Hrubesch hjá Samsunspor og var í þannig stöðum í Þýskalandi og Suður Kóreu áður en hann skellti sér til Íran árið 2007. Hann aðstoðaði Ali Daei þegar hann var landsliðsþjálfari Írans. Þá var hann íþróttastjóri hjá Dallas City.

Dómari verður Pavel Královec frá Tékklandi

Dómari verður Pavel Královec frá Tékklandi en hann er fæddur 16. ágúst árið 1977. Þetta er ellefti UEFA Euro leikurinn hans. Hann dæmdi á EM árið 2016 og Ólympíuleikunum árið 2012.

Erik Hamren hefur sagt að hann muni stilla upp liði sem eigi að vinna leikinn í kvöld, stefnan er að klára riðilinn með þremur stigum. Hvort Mikael Neville Anderson fái séns í byrjunarliðinu mun koma í ljós en hann átti skínandi innkomu gegn Tyrkjum. Þá er einnig spurning hvort Kári Árnason fái hvíld og Jón Guðni Fjóluson stilli sér upp við hlið Ragnars Sigurðssonar.

Annars eru bara allir að bíða eftir drættinum á föstudag þegar kemur í ljós við hvern Ísland spilar í umspilinu.