KSÍ hefur móttekið athugasemdir frá Club Financial Control Body, sem er sjálfstæður úrskurðaraðili á vegum UEFA, vegna endurskoðunar á leyfiskerfinu.

Mikilvægustu athugasemdirnar beinast að því hvað endurspeglast í reikningum knattspyrnudeilda sem skilað er í leyfiskerfinu og að þessi skil uppfylli ekki fyllilega kröfur UEFA. Drög að svarbréfi voru kynnt fyrir stjórn sambandsins á síðasta stjórnarfundi.

Stjórn KSÍ samþykkti á sama stjórnarfundi að skipa vinnuhóp með fulltrúum KSÍ, ÍTF, Leikmannasamtökunum, KÞÍ, og fulltrúa félaga í neðri deildum, sem á að rýna í fjármál félaga í kjölfar kórónaveirunnar. Í fundargerð sambandsins segir að miklir óvissutímar séu fram undan, þar sem fastur kostnaður helst óbreyttur en allar tekjuforsendur eru brostnar. ÍTF skrifaði stjórn KSÍ bréf í síðustu viku þar sem lýst var yfir áhyggjum af fjármálum. Guðni Bergsson, formaður KSÍ, sagði við fótbolta.net í gær að KSÍ hefði áhyggjur af stöðunni en verið væri að greina vandann með Deloitte. „Við ætlum að skipa vinnuhóp sem á að fara yfir ástandið. Við fengum auðvitað þessi úrræði stjórnvalda á laugadaginn þegar þau voru kynnt og erum að greina hvernig það nýtist okkur. Það er ekki allt orðið klárt þar, hvernig sjóðurinn mun virka fyrir menningar- og íþróttageirann. Við þurfum að fá nánari útfærslu á því og það mun taka einhvern tíma,“ sagði Guðni meðal annars og benti á að starfshópurinn stefndi á að starfa hratt og örugglega.

„Við ætlum að reyna að vinna þetta hratt en vel og vanda til verka. Ég held að að það sé mjög mikilvægt að allir séu tilbúnir að leggja sitt af mörkum, leikmenn og allir sem að þessu koma. Við reynum að finna sem bestar leiðir og ég er bjartsýnn á að það takist," sagði formaðurinn við fótbolta.net.