Elber Nu­nes Zacheu hefur verið dæmdur í rúm­lega 16 ára fangelsi fyrir að hafa myrt Tieli Al­ves, unnustu UFC bar­daga­kappans Rauli­an Paiva í Brasilíu árið 2018. Þá hefur hann einnig verið dæmdur fyrir til­raun til mann­dráps á Paiva sjálfum.

Það er MMA vef­miðillinn MMA Fig­hting sem greinir frá en morðið átti sér stað í októ­ber árið 2018 í Santana í Brasilíu þegar að Paiva yfir­gaf nætur­klúbb í borginni á­samt unnustu sinni Tieli Al­ves.

Þá reyndu Zacheu og annar maður að slást við Paiva sem fór af vett­vangi á mótor­hjóli sínu á­samt Al­ves.

Þegar að hann stoppaði á rauðu ljósi skömmu seinna var bif­reið, sem Zacheu var í far­þega­sætinu í, ekið á Al­ves og Paiva, sem sátu á mótor­hjólinu. Maður að nafni Amoras ók bílnum en hann hafði verið á flótta eftir at­vikið, allt þar til degi áður en mál Zacheu var tekið fyrir dóm­stóla.

Réttar­höld yfir Amoras eru á­ætluð árið 2023.

Við höggið af bílnum flaug mótor­hjóla­hjálmurinn af Al­ves og hún dróst með bílnum tæpa tuttugu metra. Hún lést sex dögum síðar.

Paiva, unnusti Tieli Al­ves segir refsinguna sem Zacheu fékk, allt­of létt­væga.

,,Þetta er allt­of stuttur dómur fyrir það sem hann gerði, glæpinn sem hann framdi," segir Paiva í sam­tali við MMA Fig­hting.

Dóms­kerfið í Brasilíu sé gallað.

,,En ég vona að hann gjaldi fyrir það sem hann gerði, við getum ekki beðið um neitt annað. Við erum á­nægð með að hann muni dúsa í fangelsi, þó ekki lengi, en hann verður þó í fangelsi.

Ekkert mun geta fært mér Tieli aftur."

Paiva er fæddur árið 1995 í Santana í Brasilíu. Það var árið 2019 sem hann barðist á sínu fyrsta bardagakvöldi í UFC.

Á sínum ferli í blönduðum bardagalistum hefur hann barist í 26 bardögum, unnið 21 og tapað 5.