Elber Nunes Zacheu hefur verið dæmdur í rúmlega 16 ára fangelsi fyrir að hafa myrt Tieli Alves, unnustu UFC bardagakappans Raulian Paiva í Brasilíu árið 2018. Þá hefur hann einnig verið dæmdur fyrir tilraun til manndráps á Paiva sjálfum.
Það er MMA vefmiðillinn MMA Fighting sem greinir frá en morðið átti sér stað í október árið 2018 í Santana í Brasilíu þegar að Paiva yfirgaf næturklúbb í borginni ásamt unnustu sinni Tieli Alves.
Þá reyndu Zacheu og annar maður að slást við Paiva sem fór af vettvangi á mótorhjóli sínu ásamt Alves.
Þegar að hann stoppaði á rauðu ljósi skömmu seinna var bifreið, sem Zacheu var í farþegasætinu í, ekið á Alves og Paiva, sem sátu á mótorhjólinu. Maður að nafni Amoras ók bílnum en hann hafði verið á flótta eftir atvikið, allt þar til degi áður en mál Zacheu var tekið fyrir dómstóla.
Réttarhöld yfir Amoras eru áætluð árið 2023.
Við höggið af bílnum flaug mótorhjólahjálmurinn af Alves og hún dróst með bílnum tæpa tuttugu metra. Hún lést sex dögum síðar.
Paiva, unnusti Tieli Alves segir refsinguna sem Zacheu fékk, alltof léttvæga.
,,Þetta er alltof stuttur dómur fyrir það sem hann gerði, glæpinn sem hann framdi," segir Paiva í samtali við MMA Fighting.
Dómskerfið í Brasilíu sé gallað.
,,En ég vona að hann gjaldi fyrir það sem hann gerði, við getum ekki beðið um neitt annað. Við erum ánægð með að hann muni dúsa í fangelsi, þó ekki lengi, en hann verður þó í fangelsi.
Ekkert mun geta fært mér Tieli aftur."
Paiva er fæddur árið 1995 í Santana í Brasilíu. Það var árið 2019 sem hann barðist á sínu fyrsta bardagakvöldi í UFC.
Á sínum ferli í blönduðum bardagalistum hefur hann barist í 26 bardögum, unnið 21 og tapað 5.