Hamar-Þór endaði um miðja deild í 1. deild á síðasta tímabili en Hvergerðingar fengu að kenna á því í gærkvöld gegn öflugu liði Haukakvenna á Ásvöllum.

Gestunum tókst að halda í við Hauka í fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta bættu Haukakonur 34 stigum við forskot sitt og leiddu með 49 stigum í hálfleik.

Þrátt fyrir yfirburðina voru Haukar ekkert að slaka á klónni og bættu átján stigum við forskot sitt í sitt hvorum leikhlutanum eftir hálfleik.

Eva Margrét Kristjánsdóttir var stigahæst af þeim sex Haukakonum sem voru með yfir tíu stig og vantaði Helenu Sverrisdóttir eitt frákast til að ná þrefaldri tvennu.