KA/Þór tryggði sér sæti í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handbolta í fyrsta sinn með stórsigri á Fjölni, 35-24, í KA-heimilinu í gær. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem lið úr næstefstu deild kvenna kemst í undanúrslit í bikarkeppninni.

Norðanstúlkur voru mun sterkari aðilinn í leiknum. Þær náðu mest átta marka forystu í fyrri hálfleik, 13-5, og leiddu með fimm mörkum í hálfleik, 20-15. KA/Þór byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti, skoraði fyrstu fimm mörk hans og náðu 10 marka forskoti, 25-15.

Mestur varð munurinn 12 mörk, 33-21, en á endanum munaði 11 mörkum á liðunum. Lokatölur 35-24, KA/Þór í vil.

Hin þrautreynda Martha Hermannsdóttir fór mikinn í liði KA/Þórs og skoraði 15 mörk, þar af níu úr vítum. Katrín Vilhjálmsdóttir skoraði fimm mörk og Hulda Bryndís Tryggvadóttir fjögur.

Tveir aðrir leikir fóru fram í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar í gær. Haukar unnu sjö marka sigur á HK, 18-25, og Fram bar sigurorð af ÍR, 26-32.

Í kvöld kemur það svo í ljós hvort Stjarnan eða ÍBV verður síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar. Stjarnan er bikarmeistari síðustu tveggja ára.

Með því að smella hér má lesa veglega umfjöllun um sigur KA/Þórs á Fjölni á heimasíðu KA.