Manchester United er komið í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar eftir 3-0 sigur á Partizan á heimavelli í kvöld þegar tvær umferðir eru eftir af riðlakeppninni.

United er með sex stiga forskot á Partizan og með innbyrðis viðureignina á serbneska liðið eftir að hafa unnið báða leiki liðanna.

Mason Greenwood og Anthony Martial komu heimamönnum yfir í fyrri hálfleik áður en Marcus Rashford gerði út um leikinn í seinni hálfleik.

Á sama tíma byrjuðu Hörður Björgvin Magnússon og Arnór Sigurðsson í liði CSKA Moskvu sem tókst ekki að skora í markalausu jafntefli gegn Ferencvaros í Ungverjalandi.

Jafnteflið þýðir að CSKA á ekki lengur möguleika á að komast áfram í útsláttarkeppnina.

Fyrr í dag lék Arnór Ingvi Traustason allan leikinn í markalausu jafntefli Lugano og Malmö í Sviss en Jón Guðni Fjóluson kom ekkert við sögu í 3-1 sigri Krasnodar á Trabzonspor.