Dregið var fyrr í dag í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu og ber þar hæst að nefna einvígi Manchester United gegn Barcelona annarsvegar og hinsvegar einvígi Tottenham og Manchester City.

Þetta var í fyrsta sinn í tíu ár sem fjögur ensk lið voru í pottinum þegar dregið var í átta liða úrslitin en Liverpool slapp best allra enska liða.

Manchester United fær það strembna verkefni að mæta Lionel Messi og félögum í Barcelona. Messi hefur fjórum sinnum áður mætt Manchester United og unnið tvo leiki, einum lokið með jafntefli og enska félagið hefur unnið einn.

Nágrannar United í Manchester City mæta samlöndum sínum í Tottenham í baráttu liðanna sem hafa aldrei komist í úrslitaleikinn sjálfan áður. Tottenham hefur lengst komist í átta-liða úrslitin en Manchester City í undanúrslitin.

Ajax sem sló óvænt út ríkjandi meistarana í Real Madrid í sextán liða úrslitunum mætir Juventus á meðan Liverpool mætir Porto. Þetta er annað árið í röð sem Liverpool mætir Porto í útsláttarkeppninni.

Sigurvegari einvígis Manchester United og Barcelona mætir sigurvegara einvígis Porto og Liverpool í undanúrslitunum en í hinu einvíginu mætast sigurvegarinn úr einvígi Manchester City og Tottenham og sigurvegari einvígis Ajax og Juventus.