Virgil van Dijk og Mohamed Salah skoruðu mörkin þegar Liverpool náði sautján stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með sigri á erkifjendum sínum í Manchester United.

Það virðist ekkert geta stöðvað Liverpool sem hefur ekki tapað í síðustu 51 leikjum á heimavelli og ekki í rúmt ár í ensku úrvalsdeildinni.

Virgil van Dijk skoraði fyrra mark leiksins með skalla á upphafmsínútum leiksins og dugði það til. Roberto Firmino og Gini Wijnaldum komu báðir boltanum í netið í leiknum en mörk þeirra voru flautuð af.

Manchester United fékk fínt færi í seinni hálfleik en Anthony Martial fór illa með það eftir að hafa komist inn á vítateig andstæðinga sinna

Í uppbótartíma var það svo Salah sem innsiglaði sigur heimamanna eftir góða skyndisókn og kom í veg fyrir að Manchester United næði aftur að taka stig af Liverpool.