Fjölnir og KA gerðu 2-2 jafntefli í 1. umferð Pepsi-deildar karla í dag. Leikurinn fór fram í Egilshöll.

Öll fjögur mörkin komu í fyrri hálfleik sem var bráðfjörugur.

Strax á 2. mínútu kom Ægir Jarl Jónasson Fjölni yfir með sínu fyrsta marki í efstu deild.

Á 14. mínútu jafnaði Daníel Hafsteinsson metin fyrir KA. Líkt og Ægir skoraði hann sitt fyrsta mark í efstu deild í dag.

Aðeins þremur mínútum eftir að Daníel jafnaði komst Fjölnir aftur yfir. Birnir Snær Ingason var þar á ferðinni með glæsilegu marki.

Á 37. mínútu jafnaði Ásgeir Sigurgeirsson metin í 2-2 sem urðu lokatölur leiksins.

Þess má geta að markaskorarnir fjórir eru allir fæddir árið 1996 eða seinna.