Fara þarf varlega þegar litið er sex ár fram í tímann og spáð fyrir um framtíðarhorfur inni á knattspyrnuvellinum en sífellt stækkandi hópur knattspyrnuaðdáenda í Bandaríkjunum getur farið að hlakka til næstu ára og þá sérstaklega til þess þegar Heimsmeistaramótið fer fram þar í landi árið 2026.

Bandarískir leikmenn eru farnir að gera sig gildandi í stærstu liðum Evrópu og ef örlögin eru bandaríska liðinu hliðholl gætu Bandaríkin í fyrsta sinn verið með lið sem er líklegt til afreka á heimavelli. Undanfarna áratugi hefur karlaliðið leikið í skugga hins magnaða kvennalandsliðs sem Bandaríkin hafa á að skipa og er erfitt að sjá karlana toppa fjóra heimsmeistaratitla og fjögur Ólympíugull á næstunni. Ung kynslóð bandarískra knattspyrnumanna virðist þó óttalaus og sagði Sergino Dest, tvítugur bakvörður Barcelona, í viðtölum fyrr í mánuðinum að liðið gæti gert eitthvað magnað á HM 2026 og að markmiðið væri að vinna gullið á heimavelli.

Bandaríska liðið hefur notið góðs af því að samkeppnin er lítil í undankeppninni fyrir HM í Norður-Ameríku og komst liðið því í sjö lokakeppnir í röð frá árinu 1990 til 2014. Það var mikið sjónarspil þegar Bandaríkin héldu HM í fyrsta sinn 1994 og tókst liðinu að komast áfram í sextán liða úrslitin á kostnað hins magnaða liðs sem Kólumbía hafði að skipa það árið. Það reyndist síðasta stopp Bandaríkjanna sem féll úr leik gegn verðandi heimsmeisturum Brasilíu. Besti árangur liðsins til þessa eru átta liða úrslitin á HM í Japan og Suður-Kóreu árið 2002 þar sem bandaríska liðið sendi erkifjendur sína í Mexíkó heim á leið. Síðan þá hafa Bandaríkin tvisvar komist í sextán liða úrslit en ekki enn gert atlögu að verðlaunasæti með lið sem hafa iðulega verið byggð í kringum eina stjörnu, skipulag og góða markvörslu. Liðið olli hins vegar miklum vonbrigðum þegar hörmulegt tap gegn Trínidad og Tóbagó varð til þess að Bandaríkin misstu af HM í Rússlandi árið 2018.

Það var því komið að ákveðnum kynslóðaskiptum og nú er svo að mörg af stærstu liðum Evrópu eru með bandaríska leikmenn í lykilhlutverki í sóknarleiknum. Þrátt fyrir ungan aldur er Christian Pulisic að hefja fjórða ár sitt hjá einu af stærstu liðum Evrópu og sitt annað ár hjá Chelsea eftir að hafa heillað með liði Dortmund þar áður. Pulisic fór ungur að árum til Dortmund og varð yngsti erlendi markaskorarinn í sögu félagsins þegar hann skoraði fyrsta mark sitt fyrir átján ára afmæli sitt. Það skaut honum upp á stjörnuhimininn í heimalandinu og varð hann, enn táningur, að andliti framtíðarliðs Bandaríkjanna í knattspyrnu.

Brotthvarf hans frá Dortmund reyndist heillaskref fyrir annan ungan bandarískan sóknartengilið. Þýska félagið keypti Gio Reyna, sextán ára son Claudio Reyna sem lék á sínum ferli 112 leiki fyrir bandaríska landsliðið, sama sumar og Pulisic hélt til Englands. Framkvæmdarstjóri Dortmund, Hans-Joachim Watzke, hafði orð á því að Reyna gæti haft sömu áhrif og Pulisic og var Reyna kominn í aðallið Dortmund hálfu ári síðar. Bætti hann um leið met Pulisic sem yngsti bandaríski leikmaðurinn í þýsku deildinni. Reyna hefur ekki enn leikið fyrsta leik sinn fyrir Bandaríkin og getur enn valið á milli Portúgal, Englands, Argentínu og Bandaríkjanna en hann hefur sjálfur gefið það út að hann ætli sér að leika fyrir Bandaríkin.

Þeir Reyna og Pulisic ættu ná að valda usla í varnarlínum andstæðinganna og framherjinn Josh Sargent hefur enn tíma til að standa undir þeim væntingum sem gerðar voru til hans. Fyrir aftan þá ætti bandaríska liðið að geta reitt sig á Weston McKennie sem var á dögunum keyptur frá Schalke til ítalska stórveldisins Juventus og Tyler Adams sem er að hefja þriðja tímabil sitt hjá RB Leipzig en báðir eru þeir við tvítugt.

Í varnarlínunni verður Dest sem valdi að leika fyrir fæðingarland föður síns, Bandaríkin í stað Hollands, í stóru hlutverki og sýndi hann í leiknum gegn Real Madrid á dögunum að það er heilmikið spunnið í þann dreng. Óvíst er hvaða miðverði bandaríska liðið getur kallað á eftir sex ár en Chris Richards sem er að reyna að brjóta sér leið inn í byrjunarlið Bayern Munchen verður að teljast líklegur.

Þá nýtur bandaríska knattspyrnusambandið góðs af því að Zack Steffen, markvörður landsliðsins, er þessa dagana á mála hjá Manchester City. Steffen er varamarkvörður Ederson og lærir þar af einum besta markverði heims hjá einu af bestu liðum heims. Hann hefur sýnt það í MLS og hjá Fortuna Dusseldorf að bandaríska þjóðin kann enn að búa til markmenn sem geta leikið í sterkustu deildum heims.

Bandaríska þjóðin nýtur því góðs af því að eiga hryggjarstykki fimm manna sem eru allir undir 23 ára í Dest, McKennie, Adams, Pulisic og Reyna. Allir þessir leikmenn eru í stórum hlutverkum hjá sínum liðum og ættu því að vera fullmótaðir knattspyrnumenn þegar mótið fer fram í heimahögunum. Þá eru fjölmargir ungir bandarískir knattspyrnumenn í akademíum víðs vegar um Evrópu sem gætu bætt við það sem verður ansi líklega öflugur hópur Bandaríkjanna eftir sex ár.

Tveir úr þessu U19 ára liði eru á mála hjá Barcelona. Fréttablaðið/Getty
Mynd/Getty