Fréttablaðið tók saman nokkra einstaklinga sem gætu valdið usla ef þeir fá tækifæri til að láta ljós sitt skína á Evrópumótinu í sumar.

Jerermy Doku er 18 ára
Fréttablaðið/Getty

Doku gæti fengið tækifæri í fyrsta leik Belga á mótinu í fjarveru Eden Hazard og Kevin de Bruyne. Hann reyndist Íslendingum erfiður í fyrsta byrjunarliðsleik sínum fyrir Belga í Þjóðadeild UEFA enda afar kvikur og leikinn kantmaður. Hann gæti þurft að taka sér sæti á bekknum þegar líða tekur á mótið en verður ógnandi vopn af bekknum.

Adam Hlozek er 18 ára
Fréttablaðið/Getty

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Hlozek átt góðu gengi að fagna í efstu deild tékkneska boltans og vonast tékkneska þjóðin til þess að þarna sé á ferðinni næsta stórstjarna landsins. Þrátt fyrir að hafa misst af tæplega hálfu tímabilinu í Tékklandi vegna meiðsla deildi Hlozek markakóngstitlinum þar í landi með fimmtán mörk og átta stoðsendingar í nítján leikjum. Stærri lið í Evrópu eru farin að líta til Hlozek, sem verður eflaust undir sjónauka allra stærstu liða Evrópu í sumar.

Jamal Musiala er 18 ára
Fréttablaðið/Getty

Musiala gat valið um að leika fyrir þrjú landslið, Nígeríu, England og Þýskaland, og háðu Englendingar og Þjóðverjar harða baráttu um sóknartengiliðinn, sem fæddist í Þýskalandi en ólst upp á Englandi. Hann varð yngsti leikmaðurinn í sögu Bayern München og lék 37 leiki með þýska stórveldinu á nýafstöðnu tímabili. Ef Timo Werner veldur vonbrigðum annað stórmótið í röð gæti Musiala fengið stærra hlutverk í þýska liðinu.

Joao Felix er 21 árs
Fréttablaðið/Getty

Fjórði dýrasti leikmaður sögunnar þarf líklegast að sætta sig við hlutverk varamanns í upphafi móts enda hefur Portúgal á að skipa einni bestu framlínu mótsins. Felix náði ekki að fylgja eftir góðri byrjun á tímabilinu með Atletico Madrid en með auknu frelsi í framlínuhlutverkinu og betri þjónustu gæti Felix átt eftirminnilegt mót fyrir Portúgal.

Alexander Isak 21 ára
Fréttablaðið/Getty

Í fjarveru Zlatan Ibrahimovic fær Alexander Isak ábyrgðarhlutverkið að leiða lið Svíþjóðar eftir tvö góð tímabil með Real Sociedad á Spáni. Isak sem samdi við Dortmund sautján ára gamall og afþakkaði tilboð Real Madrid hefur undanfarin ár sýnt afhverju hann var kallaður arftaki Zlatan í Svíþjóð sautján ára gamall. Þegar stærstu lið Evrópu eru að berjast um Erling Haaland gæti Isak heillað sem ódýrari kostur með góðum frammistöðum í sumar.