Hinn ungi írski varnarmaður Declan Rice tryggði West Ham United 1-0 sigur þegar liðið fékk Arsenal í heimsókn á London-leikvanginum í fyrsta leik 22. umferðar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag. 

Rice skoraði þá með föstu og hnitmiðuðu skoti úr vítateignum eftir sendingu frá fyrrverandi leikmanni Arsenal Frakkanum Samir Nasri sem kom í herbúðir West Ham United í janúarglugganum. 

West Ham United komst upp að hlið Leicester City í sjöunda til áttunda sæti deildarinnar með þessum sigri, en liðin hafa hvort um sig 31 stig. 

Arsenal missti hins vegar af mikilvægum stigum í baráttu sinni við Chelsea um fjórða og síðasta sætið sem gefur þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. 

Arsenal situr í fimmta sæti deildarinnar með 41 stig, en Chelsea er í fjórða sætinu með 44 stig og leik til góða. Chelsea leikur við Newcastle United klukkan 17.30 í dag.