Glæsi­legur körfu­bolta­völlur til minningar um körfu­bolta­manninn Ör­lyg Aron Sturlu­son er full­fjár­magnaður og verður til­búinn til notkunar í Ung­menna­garði Reykja­nes­bæjar síðar í sumar, frá þessu greindi Margrét Norð­fjörð Karls­dóttir, for­maður ung­linga­ráðs fé­lags­mið­stöðvarinnar Fjör­heima á fundi í­þrótta- og tóm­stunda­ráðs Reykja­næs­bæjar á dögunum.

Ung­linga­ráð Fjör­heima setti sér það mark­mið að reisa körfu­bolta­völl í Ung­menna­garði Reykja­nes­bæjar til minningar um körfu­bolta­manninum Ölla (Ör­lyg Aron Sturlu­son) sem lést af slys­förum að­eins 18 ára gamall. Mark­miðið er að Ölla­völlurinn verði fyrsta skref í endur­upp­byggingu Ung­menna­garðsins sem stað­settur er við Hafnar­götu 88, sem hýsir fé­lags­mið­stöðina Fjör­heima og 88húsið sem er ung­menna­hús Reykja­nes­bæjar.

Eitt mesta efni íslenskrar körfuboltasögu

Ör­lygur var að­eins 16 ára gamall þegar að hann steig sín fyrstu skref með meistara­flokki Njarð­víkur og ljós var að um eitt mesta efni í sögu ís­lensk körfu­bolta var að ræða. Þrátt fyrir ungan aldur varð Ör­lygur fljótt lykil­maður í liði Njarð­víkur sem varð síðan Ís­lands­meistari árið 1998.

Eftir árangurs­ríkan tíma hjá Njarð­vík hélt Ör­lygur út til Banda­ríkjna, nánar til­tekið North Carolina þar sem að hann stundaði nám og spilaði körfu­bolta með Char­lotte Christians Knights.

Eftir dvöl sína í Banda­ríkjunum snéri Ör­lygur aftur heim og tók upp þráðinn með Njarð­víkingum, þá 18 ára gamall, fékk frum­raun sína með ís­lenska lands­liðinu og stimplaði sig inn sem einn besti leik­maður efstu deildar hér heima.

Árið 2000 lést Ör­lygur af slys­förum, degi eftir að hann spilaði Stjörnu­leik Körfu­knatt­leiks­sam­bands Ís­lands eins og segir á vef­síðu Minningar­sjóðs Ölla.

Hér fyrir neðan má horfa á heimildar­mynd eftir Garðar Örn Arnar­son sem ber nafnið Ölli og er um líf og leik Ör­lygs. ,,Myndin rekur feril Ör­lygs og gefur á­horf­andanum tæki­færi á að kynnast þessum ein­staka dreng í gegnum vini hans, þjálfara, mót­spilara og ættingja," segir í lýsingu myndarinnar.