Karlalið FH í knattspyrnu vann í gær glæstan sigur á KA í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í gær. Leiknum lauk með 2-1 sigri FH sem tryggði sér þar með sæti í úrslitaleiknum sem fram fer á Laugardalsvelli þann 1. október næstkomandi. Andstæðingur liðsins þar verða ríkjandi bikarmeistarar síðari ára, Víkingur Reykjavík.

Það var glatt á hjalla í gær þegar úrslitin urðu ljós og FH, sem hefur verið í basli á tímabilinu, náði að vinna góðan sigur á einu af toppliðum sumarsins, KA. Það voru hins vegar gestirnir frá Akureyri sem komust yfir með marki frá Elfari Árna Aðalsteinssyni á 18. mínútu.

Hlutirnir tóku hins vegar stefnu til hins verra á 70. mínútu fyrir gestina þegar að Bryan Van Den Bogaert fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. KA þurfti því að leika restina af leiknum einum manni færri og FH-ingar gengu á lagið.

Stuttu eftir rauða spjaldið jafnaði Oliver Heiðarsson metin fyrir heimamenn og það var síðan í uppbótartíma venjulegs leiktíma sem Davíð Snær Jóhannsson fullkomnaði endurkomu FH með sigurmarki.

Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfari FH var að vonum ánægður með sigur sinna manna og gleðin leyndi sér ekki í viðtali sem Eiður Smári fór í setti hjá RÚV eftir leik. Ungir og glaðir stuðningsmenn FH hlupu inn í beina útsendingu RÚV og dönsuðu sigurdans í kringum Eið Smára.

Mynd: Skjáskot af streymi RÚV

Verkefnið ærið

Eiður Smári benti réttilega á það í viðtalinu hjá RÚV að leikmenn FH gætu ekki leyft sér að fagna þessum sigri lengi. Liðið er í fallbaráttu í Bestu deildinni og fram undan eru úrslitaleikir við lið sem eru í sömu stöðu og þeir í deildinni.

FH er í 10. sæti Bestu deildarinnar sem stendur, einu stigi frá fallsæti og mætir neðsta liði deildarinnar Leikni Reykjavík á útivelli á sunnudaginn. Leiknismenn eru aðeins tveimur stigum á eftir FH og eiga leik til góða á liðin fyrir ofan sig.

Það mætti í raun segja að úrslitaleikirnir fyrir FH komi núna á færibandi því sunnudaginn 11. september næstkomandi mun liðið mæta ÍA sem situr í fallsæti deildarinnar núna, einu sæti neðar en FH.

Þessi lið vilja öll reyna að bæta stöðu sína áður en deildinni verður skipt upp í tvær úrslitakeppnir eftir og neðri hluta.