Kaflaskil verða hjá íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu í kvöld þegar liðið lýkur leik í Þjóðadeildinni á þessu keppnistímabili með því að sækja England heim á Wembley. Leikurinn í kvöld verður sá síðasti þar sem Svíinn Erik Hamrén verður á hliðarlínunni við stjórnvölinn hjá íslenska liðinu.

Lykilleikmenn mun vanta í bæði lið en hjá Íslandi verða Aron Einar Gunnarsson, Alfreð Finnbogason, Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Ragnar Sigurðsson og Viðar Örn Kjartansson ekki með að þessu sinni. Inn í hópinn frá tapinu gegn Dönum á sunnudagskvöldið koma þeir Alfons Sampsted, Jón Dagur Þorsteinsson, Andri Fannar Baldursson, Sveinn Aron Guðjohnsen og Ísak Bergmann Jóhannesson.

Kári Árnason verður fyrirliði íslenska liðsins í þessum leik en hann hefur sjálfur ýjað að því að þetta gæti verið hans síðasti leikur í landsliðsbúningnum. Kári segist ekki munu setja landsliðsskóna á hilluna en setja það í hendurnar á nýjum landsliðsþjálfara hver framtíð hans verður hjá landsliðinu.

„Ég ætla að spila eitt ár enn með Víkingum en svo kemur bara í ljós hver framtíðin er með landsliðinu. Ég mun áfram gefa kost á mér ef sá sem tekur við liðinu velur mig. Það er hins vegar ekkert ólíklegt að nýr þjálfari vilji skoða aðra kosti en 39 ára gamlan leikmann,“ sagði Kári á blaðamannafundi í gær en varnarmaðurinn öflugi er 22 árum eldri en Ísak Bergmann sem gæti líkt og Sveinn Aron spilað sinn fyrsta A-landsleik á hinum sögufræga velli í kvöld.

Ísak gæti fengið eldskírn sína með A-landsliðinu í kvöld. Fréttablaðið/valli

Hamrén sagðist ætla að spila á sterkasta liðinu sem völ væri á en hafa yrði í huga hversu mikið álag hefði verið á leikmönnum síðustu dagana við liðsvalið í þessum leik.

„Það er óraunhæft að láta leikmenn spila þrjá fulla keppnisleiki á jafn skömmum tíma og hefur verið í þessum landsliðsglugga. Þó svo að það sé að litlu að keppa fyrir okkur, þá skiptir stoltið alltaf miklu máli þegar leikmenn spila fyrir land sitt.“

Sumir eru mögulega að fara að spila sinn fyrsta leik, aðrir eru reynslulitlir og svo eru enn aðrir sem eru á lokakafla landsliðsferils síns.

Hamrén var spurður sérstaklega um Ísak Bergmann á fundinum en Real Madrid bættist í þessari viku í hóp Juventus, Liverpool og Manchester United sem fylgjast grannt framvindu mála hjá honum.

„Það komu fimm leikmenn úr U-21 árs landsliðinu inn hópinn og þeir eru hér til þess að ná sér í reynslu. Einn þeirra er Ísak sem er hæfileikaríkur eins og hinir. Það er klárt mál í mínum huga að Ísak verður mikilvægur hlekkur hjá íslenska liðinu innan tíðar. Það getur vel verið að Ísak byrji landsliðsferil sinn á Wembley sem er draumur hjá mörgum ungum knattspyrnumönnum,“ sagði þjálfarinn um ungviðið í liðinu.

„Við vorum svekktir að fá ekki stig þegar við fengum England í heimsókn á Laugardalsvöllinn en í kvöld verða aðrar forsendur til staðar og liðin mæta til leiks á ólíkum stað þar sem við höfum spilað tvo keppnisleiki en England bara einn í þessum glugga.

Það er svo annað að mæta Englandi á heimavelli sínum eða Wembley sem má kalla Mekka fótboltans. Það væri óneitanlega gaman að kveðja liðið með sigri á þessum velli,“ sagði Hamrén á fundinum í gær.

Erfitt er að henda reiður á hvernig byrjunarlið íslenska liðsins verður en það gæti litið svona út:

Rúnar Alex Rúnarson – Ari Freyr Skúlason, Sverrir Ingi Ingason, Kári Árnason, Birkir Már Sævarsson – Guðlaugur Victor Pálsson, Andri Fannar Baldursson, Birkir Bjarnason – Jón Dagur Þorsteinsson, Albert Guðmundsson, Jón Daði Böðvarsson.