Peningaskortur íslenskra knattspyrnufélaga og ástandið í heiminum í ljósi kórónaveirunnar, hefur ýtt undir það að ungir og efnilegir knattspyrnumenn fái fleiri tækifæri á Íslandsmótinu í knattspyrnu karla á yfirstandandi keppnistímabili.

Skýrt dæmi þess að spennandi íslenskir knattspyrnumenn séu að fá aukið rými í deildinni, er það að sex ungir og efnilegir leikmenn skoruðu sitt fyrsta mark í meistaraflokki í efstu deild í sjöttu umferð deildarinnar. Þar af voru báðir markaskorarar Fylkis í sigri liðsins gegn FH, sem fleytti Árbæjarliðinu í toppsætið.

Þórður Gunnar Hafþórsson, sem kom til Fylkis frá Vestra síðasta haust, skoraði fyrra mark Árbæjarliðsins í þeim leik. Þórður Gunnar fór upp með Vestraliðinu úr 2. deildinni síðasta sumar og færði sig svo um set í Lautina. Þessi 18 ára gamli Ísfirðingur hefur leikið í öllum sex deildarleikjum Fylkis á leiktíðinni og staðið sig vel í vængstöðunni hjá liðinu.

Hinn tvítugi framherji Arnór Borg Guðjohnsen kom til Fylkis frá velska liðinu Swansea í sumarbyrjun. Arnór Borg kom inn á sem varamaður í leiknum gegn FH og stimplaði sig inn í leikinn með því að skora sigurmark Fylkisliðsins. Arnór hafði áður skorað tvö mörk Fylkis í stórsigri gegn ÍH í 32 liða úrslitum bikarkeppninnar.

Valdimar Þór Ingimundarson hefur svo haldið áfram jákvæðri þróun sinni síðustu mánuðina, en hann er í lykilhlutverki í sóknarleik Fylkismanna. Valdimar hefur skorað fimm mörk í deildinni, sem er einu marki minna en markahæstu leikmenn deildarinnar, þeir Óttar Magnús Karlsson, Thomas Mikkelsen og Patrick Pedersen og jafnmörg mörk og Steven Lennon.

Stefán Árni Geirsson fékk það verðuga verkefni að leysa Óskar Örn Hauksson af hólmi á vinstri vængnum hjá KR, þegar liðið fékk Breiðablik í heimsókn í stórleik umferðarinnar. Stefán Árni var ekki lengi að láta til sín taka, en hann skoraði sitt fyrsta deildarmark fyrir KR eftir góðan sprett með huggulegu slútti í upphafi leiksins.

Stefán Árni er uppalinn hjá KR og er í uppáhaldi hjá stuðningsmönnum Vesturbæjarliðsins. Þessi tekníski sóknartengiliður var með betri mönnum hjá Leikni í 1. deildinni síðasta sumar og hafði greinilega gott af veru sinni í Breiðholtinu.

Hinn uppaldi Víkingur Viktor Örlygur Andrason sem lék sinn fyrsta deildarleik í meistaraflokki árið 2016, þá 16 ára gamall, braut ísinn í markaskorun í efstu deild með skrautlegu marki í sigri Víkings á móti HK.

Miðvallarleikmaðurinn Orri Þórhallsson sá til þess að Fjölnir fór með stig í farteskinu úr för sinni til Akureyrar. Fjölnir, sem gerði 1-1 jafntefli á móti KA, er með marga unga og efnilega leikmenn í sínum herbúðum og Orri sem er 18 ára gamall er einn af þeim leikmönnum Grafarvogsliðsins sem spennandi verður að fylgjast með.

Brynjar Snær Pálsson, sem er alinn upp í yngri flokkum í Borgarnesi og sleit barnsskónum í meistaraflokki Skallagríms, hefur leikið vel með ÍA í sumar. Brynjar Snær gekk til liðs við ÍA frá Borgarnesi árið 2017 þegar Gunnlaugur Jónsson og Jón Þór Hauksson voru við stjórnvölinn hjá Skagamönnum. Brynjar komst svo á blað í efstu deild, þegar hann skoraði eitt marka Skagaliðsins í 4-0 sigri gegn Gróttu um helgina.

ÍA, Kári og Skallagrímur tefla fram sameiginlegu liði í 2. flokki en það lið varð Íslandsmeistari árin 2018 og 2019 og lék þar fyrir utan í Evrópukeppni ungmennaliða síðasta haust, með góðum árangri.

Brynjar Snær, sem er fæddur árið 2001, var hluti af því liði en hann fékk sénsinn með meistaraflokki ÍA á síðasta tímabili, og hlutverk hans hefur síðan aukist í sumar.