Verstappen leiðir stigakeppni ökumanna í Formúlu 1 nú þegar að aðeins tvær keppnir eru eftir af tímabilinu. Aðeins átta stig skilja að hann og Sir Lewis Hamilton, ökuþór Mercedes, sem hefur unnið tvær síðustu keppnir og minnkað bilið í Verstappen töluvert.

Verstappen er í leit að sínum fyrsta heimsmeistaratitli en Hamilton reynir að tryggja sér sinn áttunda titil sem yrði með í Formúlu 1. Hamilton vann kappaksturinn í Katar um síðastliðna helgi. Refsing sem Verstappen fékk eftir tímatökur helgarinnar sáu til þess að hann náði ekki að skáka Hamilton. Hann náði hins vegar að lágmarka skaðan.

Verstappen náði að lágmarka skaðann um helgina
GettyImages

,,Ég fæ aldrei pakka frá þeim," segir Verstappen er hann er spurður út í ákvörðun dómara keppninnar um að veita honum fimm sæta refsingu um síðustu helgi fyrir að hafa hundsað gul flögg á brautinni.

Verstappen segir að hann hefði að sjálfsögðu viljað breikka bilið á milli sín og Hamilton. ,,En þegar að það vantar upp á hraðann hjá okkur á brautinni þá er ómögulegt að gera það. Við reynum bara að gera betur og koma sterkari til baka í næstu keppnum."

Hollendingurinn ungi segist nánast hafa vitað það um leið og atvikið átti sér stað að hann myndi fá refsingu, hann lét það hins vegar ekki draga úr sér. ,,Ég varð bara staðráðinn í því að halda áfram. Við byrjuðum keppnina vel og eftir rúma fimm hringi var ég kominn í annað sæti," sagði Max Verstappen, ökuþór Red Bull Racing, sem vildi lítið gefa upp um það hvort honum fyndist refsingin réttlætanleg.