„Við erum ekki að undirbúa okkur neitt öðruvísi þannig. Næstu sólarhringa þurfum við að sækja eins mikla orku og við getum, bæði leikmenn, starfslið og aðrir sem koma að liðinu. Við þurfum bara að vera með alla tanka fulla á þessum tímapunkti,“ segir Ásmundur Haraldsson, aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins, spurður hvort þjálfarateymið myndi breyta undirbúningnum eitthvað vegna hitans sem er von á þegar Ísland mætir Frakklandi á mánudag.

Ásmundur ræddi við Fréttablaðið á æfingu kvennalandsliðsins í gær en íslenska liðið hefur undanfarna daga æft í um 20-27 stiga hita í Englandi.

Hitinn náði 28 gráðum í fyrsta leik Íslands gegn Belgum á Evrópumótinu en óttast er að hitametið á Englandi falli annaðhvort á mánudag eða þriðjudag og er búið að gefa út veðurviðvörun vegna hitans á leikdegi Íslands eftir helgi.

„Við stjórnum ekki veðri né vindi. Við þekkjum það vel heima, við getum engan veginn stjórnað veðráttunni,“ segir Ásmundur léttur í lund.

Hann segir að íslenska liðið sé enn með örlögin í eigin höndum, aðspurður út í næsta verkefni liðsins.

„Við vildum vera í þeirri stöðu fyrir síðasta leik, að vera með úrslitaleik gegn Frakklandi. Hvað verður og hvað gerist. Við höfum ekki tapað leik, höfum skorað mörk og erum búin að spila ágætlega vel úr þeim spilum sem við höfum haft. Það er það sem við þurfum að einblína á fyrir síðasta leikinn. Það er svo okkar að undirbúa okkur og grípa tækifærið.“