Þrátt fyrir að tvö ár séu liðin frá því að ríkisstjórnin boðaði, að eigin sögn, mikilvæg skref vegna þjóðarleikvangs í knattspyrnu eru Íslendingar engu nær þegar kemur að vegferðinni að skóflustungu að nýjum þjóðarleikvangi í knattspyrnu.

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður Knattspyrnusambands Íslands, segir að valkostagreining breska ráðgjafarfyrirtækisins AFL sé enn gild þar sem gert var ráð fyrir breytilegum kostnaði.

Vanda er spurð að því hvort skýrslan sé orðin einfaldlega úrelt vegna þeirra breytinga sem hafa átt sér stað í efnahagsmálum landsins á þeim tveimur árum sem eru liðin frá því að skýrslan kom út.

„Allar kostnaðartölurnar eru í reiknilíkani og það er hægt að uppfæra þær og breyta eftir því hvaða leið er farin, hvenær sem það verður. Það ætti ekki að vera mikið mál að uppfæra þessar tölur.“

Í skýrslunni sem kom út árið 2020 voru lagðir fram fjórir möguleikar. Einn þeirra var að ráðast í lágmarksendurbætur á núverandi velli og annar að uppfæra völlinn í takt við kröfur Alþjóða- og evrópska knattspyrnusambandsins.

Að lokum voru lagðir fram möguleikarnir á 15.000 manna velli eða fjölnotaleikvangi sem gæti tekið 17.500 í sæti og voru báðir möguleikar skoðaðir með og án opnanlegs þaks. Ekki var talið fýsilegt til langs tíma að vinna í úrlausnum á Laugardalsvelli og taldi AFL völl með sætum fyrir 15.000 áhorfendur hagkvæmasta kostinn.

Vanda segist vonast til þess að markaðskönnun sem Þjóðarleikvangur, félag sem var stofnað af hálfu KSÍ, íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar í tengslum við nýjan þjóðarleikvang í knattspyrnu, verði síðasta skrefið áður en tekin verður ákvörðun um nýjan leikvang.

„Þjóðarleikvangur er að undirbúa markaðskönnun, sem vonandi fer af stað sem fyrst. Eftir því sem mér skilst er þetta eitt af lokaskrefunum áður en ákvörðun er tekin. Þarna er verið að kanna möguleika með rekstraraðila og vonandi verður þetta síðasta púslið áður en ákvörðun verður tekin.“