Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handbolta hefur tjáð sig við RÚV um ummæli sem Tomas Svensson, aðstoðarþjálfari íslenska liðsins, lét falla í samtali við sænska blaðið Aftonbladet og birtust í gær.

Þar hélt Svensson því fram að læknateymi íslenska liðsins hafi ekki skoðað meiðsli Arons og því ekki fengið tækifæri til þess að meta hvort hann væri klár í slaginn á heimsmeistaramótinu sem nú stendur yfir í Egyptalandi.

„Þetta var náttúrulega mjög skrítið verð ég að segja að vakna við þetta í gær. Hann [Tomas Svensson] hringdi náttúrulega í mig um leið og baðst afsökunar. En ég auðvitað gekk á hann og spurði hann hvað honum gengi til.

Í rauninni er það sem kemur út úr þessu að það var bara samskiptaleysi hjá þeim, þjálfurunum og innan HSÍ. Það er í rauninni ekkert gruggugt í gangi,“ segir Aron Pálmarsson í samtali við RÚV.

„Binni læknir [Brynjólfur Jónsson] er búinn að vera inn í þessu síðan þetta gerðist. Hann er búinn að vera í samskiptum við læknana úti [hjá Barcelona], við mig.

Svo flýg ég heim daginn eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar og hitti Binna síðan daginn eftir það. Þetta mál er í rauninni bara í meira lagi óheppilegt og skrítið. Það er enginn misskilningur í gangi. Þetta í rauninni bara samskiptaleysi,“ segir fyrirliðinn enn fremur.

„Það er mjög erfitt að sitja undir slíku. Maður er fyrirliði og prímus mótór í þessu liði, þannig það er alltaf smjattað á öllu og maður er orðinn vanur því. En það er náttúrulega nógu erfitt að sitja heima og þurfa að horfa á þetta í staðinn fyrir að vera að spila. Og erfitt að vera í þessum meiðslum. Sérstaklega svona meiðslum, sem eru alvarleg.

Þannig auðvitað er það leiðinlegt. Ég reyni nú lítið að pæla í því en svo fyllist mælirinn og maður þarf að láta í sér heyra, og bara í rauninni taka burt allan misskilning og segja þetta bara eins og það er,“ segir hann.