HSÍ sendi frá sér tilkynningu í dag um að Aron Pálmarsson hefði vissulega gengist undir læknisskoðun hjá sambandinu eftir að sænskur blaðamaður hafði eftir markmannsþjálfara Íslands að svo hefði ekki verið.

Í tilkynningunni kemur fram að ummæli Tomasar hafi verið byggð á misskilningi og að hann hafi beðist afsökunar á þeim.

Fyrr í dag birti Johan Flinck, blaðamaður á Aftonbladet, færslu á Twitter þar sem hann sagði að Tomas Svensson, markmannsþjálfari Íslands, hafi gefið til kynna að HSÍ hefði ekki fengið að skoða meiðsli Arons.

Þá hafi Tomas bætt því við að þetta gæti tengst viðræðum Arons við spænska stórveldið um framlengingu á samningi hans á Spáni.

Í færslu HSÍ kemur fram að Aron hafi verið skoðaður af læknum landsliðsins og þar hafi komið í ljós að hann hafi verið óleikfær vegna meiðsla á hné.

HSÍ hafi átt í góðum samskiptum við Barcelona, félagslið Arons, og harmi ummælin sem komu fram hjá sænskum blaðamanni.

Færslu HSÍ má sjá í heild sinni hér.