Ummæli Arnars á fréttamannafundi í gær hafa farið öfugt ofan í marga. „Nei, við gerum aldrei kröfu á sigur," sagði Arnar en hélt svo áfram. „Við trúum því að við getum tekið þrjú stig út úr næsta leik og við einbeitum okkur að því núna," sagði Arnar sem vildi fyrst um sinn einbeita sér að leiknum gegn Armeníu á föstudag áður en hann færi að tala um kröfur á sex stig í þessu verkefni.

Íslenska liðið mætir Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM á næstu dögum, báðir leiki fara fram á heimavelli. Laugardalsvöllur hefur verið gryfja en óvíst er hversu sterk hún er í dag.

Elvar Geir skrifar langan pistil um þessi ummæli Arnars í dag. „Arnar talaði líka um það í síðasta landsleikjaglugga að úrslitin væru ekki aðalatriðið. Margir íslenskir stuðningsmenn vilja hinsvegar með engu móti kvitta undir þessi orð hans," skrifar Elvar í pistli sínum.

„Það er líka verk að vinna fyrir Arnar að fá þjóðina með sér“

Arnar Þór hefur þurft að takast á við áður óséða hluti í íslensku íþróttalífi. Segja má að sambandið hafi um mánaðar skeið verið stjórnlaust. Formaður og stjórn sagði af sér eftir ásakanir um að hylma yfir meint kynferðisbrot. Bestu menn liðsins síðustu ár eru ekki með í þessu verkefni af ýmsum ástæðum.

Elvar skrifar um breytingarnar og segir. „Skyndilega vita stuðningsmenn Íslands ekki hver sé fyrirliðinn, hver sé aðalmarkvörður, hvert besta miðvarðaparið sé, hvernig miðjan virki best og hver sé fyrsti kostur í fremstu víglínu? Arnar veit heldur ekki svörin við þessum spurningum en hans verk er að finna þau og því fyrr því betra.“

Elvar Geir telur að Arnar Þór hafi mikið verk að vinna til að fá þjóðina með sér í lið. „Það er líka verk að vinna fyrir Arnar að fá þjóðina með sér, eftir síðasta landsleikjaglugga svöruðu 68,6% því neitandi að hann væri rétti maðurinn til að leiða kynslóðaskipti Íslands. Til að snúa þessu við þarf að gera kröfu á að úrslitin fylgi með," skrifar Elvar í pistli sínum á Fótbolta.net.