Afturelding hefur farið frumlegar leiðir til að bjóða áhorfendum upp á skemmtilegri upplifun á heimavelli sínum og til að trekkja fólk að. Áhorfendur hafa til að mynda geta farið í klippingu, nudd, vínsmökkun, fengið sér steik og fleira á leikjum liðsins í Mosfellsbæ. 

Félaginu var hrósað í hástert í nýjasta markaþætti Lengjudeildarinnar á Hringbraut.  

„Það er allt morandi í krökkum, það er búið að fá krakkana í félaginu til að mæta og það er ekkert sjálfgefið í næstefstu deild,“ segir Hrafnkell Freyr Ágústsson, sérfræðingur þáttarins. „Ég bíð eftir að þeir fari að bjóða upp á gull að borða.“ 

Hörður Snævar Jónsson, þáttastjórnandi, tekur í sama streng. „Þetta er að skila sér inn á völlinn. Það er einhver jákvæðni og stemning í kringum þetta.“ 

Afturelding situr í fimmta sæti Lengjudeildar karla með 28 stig, þegar fjórar umferðir eru óleiknar.

Fyrr í sumar ræddi Fréttablaðið við Gísla Elvar Halldórsson, formann meistaraflokksráðs karla hjá Aftureldingu, um þjónustu félagsins við stuðningsmenn á vellinum

„Pælingin er bara að fá stemningu á völlinn og fá sem flesta, hafa gaman á vellinum,“ sagði Gísli fyrr í sumar.