Golfsamband Íslands sendir öllum kylfingum Íslands stutta handbók á næstunni þar sem farið er yfir reglubreytingar sem taka gildi um áramótin.

Í tilefni þess birti Golfsamband Íslands, GSÍ, tuttugu mikilvægustu breytingarnar á vefsíðu sinni.

Verður kylfingum nú heimilt að taka lausn úr sandgryfju gegn tveimur vítahöggum og tilfallandi snerting á sandi í gryfjunni verður leyfð án víta.

Á flötinni verður kylfingum heimilt að hafa flaggstöngina í holunni þegar púttað er og sé boltinn skorðaður við flaggstöng telst hann í holunni.

Hreyfist boltinn fyrir slysni inn á flötinni er það vítalaust og skal hann lagður aftur á fyrri stað.

Kylfingum er ekki heimilt að leggja kylfu niður til aðstoðar við miðun og mega kylfuberar ekki aðstoða við miðun.

Týnist bolti er búið að stytta leitartíma úr fimm mínútum niður í þrjár mínútur og hreyfist bolti við leitina er hann lagður aftur niður á fyrri stað vítalaust.

Þá er því breytt að þegar boltinn er látinn falla við vítalausn er notuð lengsta kylfa í pokanum fyrir utan pútter og boltinn er látinn falla úr hnéhæð í stað axlarhæðar.