Alþjóðaólympíunefndin lýsti yfir óánægju með forsetakosningu Alþjóðahnefaleikasambandsins í vikunni eftir að Rússinn Umar Kremlev var endurkjörinn um helgina.

Ólympíunefndin gagnrýndi kosningarnar í yfirlýsingu eftir að kosningarstjórn dæmdi mótframboð Kremlev frá Hollendingnum Boris van der Vorst ógilt.

Kremlev tókst að þurrka út skuldir sambandsins með styrktargreiðslu frá Rússlandi rétt fyrir kosninguna.

Þetta er í þriðja sinn á síðustu fjórum árum þar sem Alþjóðaólympíunefndin lýsir sig mótfallið niðurstöðum úr forsetakosningum Alþjóðahnefaleikasambandsins.

Þá hefur nefndin sakað hnefaleikasambandið um fjársvik og að hagræða styrkleikalistum til þess að skipuleggja bardagana á Ólympíuleikunum í Ríó 2016.

Fyrir vikið kom Alþjóðahnefaleikasambandið ekki að því að skipuleggja keppnina í hnefaleikum á Ólympíuleikunum í Tókýó og eru hnefaleikar ekki á lista yfir íþróttir á Ólympíuleikunum 2028.