Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla hafa uppi áform um að umbuna félögum deildarinnar með mesta fjölda leikmanna sem bólusettir eru fyrir kórónaveirunni.

Í skjali sem inniheldur drög að þessum áformum, sem Skysports hefur undir höndum, er útfærslan ekki útlistuð nákvæmlega en markmiðið er að fjölga bólusettum leikmönnum í deildinni.

Illa hefur gengið að fá leikmenn sem spila í ensku úrvalsdeildinni til þess að bólusetja sig. Hjá leikmannahópum 13 af 20 liðum í deildinni eru minna en helmingur fullbólusettir fyrir veirunni.

Þetta átaksverkefni er liður í því að auka líkurnar á því að leikmenn og forráðamenn liðanna í deildinni þurfi ekki að hlíta strangari sóttvarnareglum verði þær settar á af ríkisstjórn Bretlands seinna í vetur.

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, tjáði sig um þessar hugmyndir en hann sagðist ekki geta þvingað leikmenn sína í bólusetningu. Um væri að ræða fullorðna menn sem þyrftu að fá að ákveða sjálfir hvað þeir gera.