Wolves vann annan leik sinn í röð í ensku úrvalsdeildinni þegar Úlfarnir unnu óvæntan sigur á ríkjandi Englandsmeisturum Manchester City.

Með sigrinum skaust Wolves upp í ellefta sætið en Manchester City er átta stigum á eftir Liverpool á toppi deildarinnar.

City sótti stíft allan leikinn en Úlfarnir voru ógnandi í skyndisóknum sínum. Upp úr einni slíkri kom Adama Traore gestunum yfir.

Í uppbótartíma innsiglaði Traore sigur Wolves með öðru marki sínu í leiknum.

Á sama tíma unnu lærisveinar Frank Lampard í Chelsea góðan 4-1 sigur á Southampton og lyftu sér upp í fimmta sæti deildarinnar.

Tammy Abraham, Mason Mount og N'Golo Kante skoruðu allir í fyrri hálfleik og leiddu gestirnir 3-1 eftir að Danny Ings minnkaði muninn.

Michy Batshuayi innsiglaði sigur Chelsea undir lok leiksins með fjórða marki gestanna eftir sendingu frá Christian Pulisic.

Þá vann Arsenal nauman 1-0 sigur á Bournemouth þar sem David Luiz skoraði eina mark leiksins á upphafsmínútunum.