Willy Boly tryggði Wolves stig gegn Newcastle United með jöfnunarmarki þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Lokatölur 1-1.

Gestirnir voru afar ósáttir og töldu að Boly hefði brotið á markverðinum Martin Dubravka áður en hann skallaði fyrirgjöf Adama Traoré í netið.

Newcastle komst yfir á 56. mínútu þegar Isaac Hayden rak smiðshöggið á laglega sókn. Rui Patrício hefði þó átt að verja skot Hayden sem var beint á hann.

Úlfarnir sóttu af krafti eftir þetta en ekkert gekk fyrr en Boly brá sér í framlínuna undir blálokin.

Wolves er í 7. sæti deildarinnar en Newcastle í því sextánda.